Munnlegur málflutningur í málinu stendur yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari fer fram á 16-20 ára fangelsi yfir Angjelin Sterkaj fyrir að ráða Armando bana laugardagskvöldið 13. febrúar síðastliðið.
Réttargæslumaður Þórönnu Helgu lýsti bótakröfu fjölskyldunnar fyrir dómi í dag. Krafist er fimm milljóna króna í miskabætur til handa Þórönnu auk 26 milljóna króna vegna missis á framfærslu. Krafist er fimm milljóna í miskabætur til handa ungs sonar Armando og sjö milljóna vegna framfærslu missis sonarins. Þá er gerð krafa um fimm milljónir í miskabætur og átta vegna missis á framfærslu fyrir nýfædda dóttur þeirra.
Þá er sömuleiðis gerð krafa um fimm milljóna króna bótagreiðslu fyrir föður Armando annars vegar og móður hins vegar.
Fram kom í máli réttargæslumannsins að morðið á Armando myndi hafa veruleg áhrif á son hans sem var aðeins sextán mánaða þegar faðir hans var myrtur. Hann hafi verið sviptur þeim rétti að fá að alast upp með föður sínum. Þetta muni án efa hafa með sér stórfelldan miska og verulegt tjón sem muni hafa alvarleg áhrif á allt hans æviskeið.
Dóttir þeirra hjóna kom í heiminn í lok maí. Með morðinu hafi hún verið svipt þeim grundvallarrétti að fá að kynnast og alast upp með föður sínum. Það muni fela í sér gífurlegan miska og verulegt tjón fyrir stúlkuna.
Rætt var við Þórönnu Helgu í Kompás nokkrum vikum eftir morðið.