Íslenski boltinn

Fimmta sinn í sögu tólf liða deildar sem titillinn vinnst í loka­um­ferðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn eru síðasta liðið til að vinna Íslandsmeistaratitilinn í lokaumferðinni en hér fagna Valsarar sigri sínum árið 2018.
Valsmenn eru síðasta liðið til að vinna Íslandsmeistaratitilinn í lokaumferðinni en hér fagna Valsarar sigri sínum árið 2018. Vísir/Bára Dröfn

Úrslitin ráðast í Pepsi Max deild karla í lokaumferðinni á morgun en það er ekki á hverju ári sem Íslandsmeistaratitilinn vinnst ekki fyrr en í síðasta leik.

Þetta verður aðeins í fimmta sinn í fjórtán ára sögu tólf liða deildar þar sem við vitum ekki hver verður Íslandsmeistari fyrr en eftir lokaumferðina.

Árin 2018, 2014, 2010 og 2008 réðust úrslitin einnig í lokaumferð úrvalsdeildarinnar.

Síðast gerðist þetta fyrir þremur árum, haustið 2018, þegar Valsmenn voru með tveggja stiga forystu á Breiðablik fyrir lokaumferðina en fengu þá langneðsta lið deildarinnar í heimsókn. Valur vann öruggan 4-1 sigur á Keflavík í lokaleiknum eftir að hafa komist í 3-0 á fyrstu tuttugu mínútunum.

Fjórum árum fyrr fengum við ótrúlegan úrslitaleik á milli FH og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn í Kaplakrika 4. október 2014. FH var á heimavelli, nægði jafntefli og FH-ingum tókst að jafna metin eftir að Stjarnan komst yfir í fyrri hálfleik.

Ólafur Karl Finsen fékk síðan umdeilt víti í uppbótartíma og skoraði úr því sigurmarkið í leiknum og markið sem tryggði Stjörnunni Íslandsmeistaratitilinn.

Breiðablik tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í lokaumferðinni 2010 en þrjú lið áttu þá möguleika á að vinna titilinn. Breiðablik var með eins stigs forskot á ÍBV og tveggja stiga forskot á FH.

Það nægði Blikum að gera markalaust jafntefli á útivelli á móti Stjörnunni því ÍBV tapaði á sama tíma 4-1 í Keflavík og þrátt fyrir 3-0 sigur FH á Fram í Laugardalnum þá náðu FH-ingar ekki að vinna upp markamuninn sem Blikar höfðu á þá. Blikar urðu því Íslandsmeistarar á markatölu.

Á fyrsta tímabili tólf liða deildar, árið 2008, þá réðust einnig úrslitin í lokaumferðinni. Keflavík var með tveggja stiga forskot á FH fyrir lokaumferðina og nægði sigur á Fram á heimavelli til þess að tryggja sér titilinn í fyrsta sinn í 35 ár.

Keflavík komst í 1-0 í leiknum en tapaði síðan leiknum 2-1 þar sem Hjálmar Þórarinsson skoraði sigurmark Fram tíu mínútum fyrir leikslok. FH vann á sama tíma 2-0 sigur á Fylki í Árbæ og tryggði sér með því Íslandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×