Umfjöllun og viðtöl: KA - FH 2-2 | KA-menn misstu af þriðja sætinu

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
KA missti af 3. sæti Pepsi Max deildarinnar.
KA missti af 3. sæti Pepsi Max deildarinnar. Vísir/Hulda Margrét

KA-menn misstu af þriðja sætinu þegar að liðið gerði 2-2 jafntefli gegn FH á Greifavellinum í lokaumferð Pepsí Max deildar karla í dag.

FH byrjaði leikinn betur og átti marktilraun strax á fyrstu mínútu leiksins þegar Logi Hrafn skaut boltanum af stuttu færi en Dusan Brkovic bjargaði á línu.

Varnarlínur liðanna voru í miklu stuði og því lítið um opnanir í fyrri hálfleik. Bæði lið fengu sína sénsa. FH kannski ívið betri tækifæri. Framan af voru liðin ekki að nýta sína sénsa, mikið miðjumoð og tempóið heldur til lágt.

Það dróg þó til tíðinda á 26 mínútu leiksins. Jónatan Ingi tók þá hornspyrnu sem Steinþór Már í marki KA virtist hafa gripið nokkuð auðveldlega en hann missti boltann úr höndunum á sér og beint fyrir fætur Ólaf Guðmundssonar sem lét ekki bjóða sér þetta tvisvar og skoraði auðveldlega. Heimamenn gerðu tilraunir til að jafna leikinn áður en hálfleikurinn var úti en náðu ekki að opna þéttan varnarmúr FH. Staðan því í hálfleik 0-1 fyrir FH í hálfleik.

KA menn voru fljótir að koma sér á blað í seinni hálfleiknum en þá átti Nökkvi Þeyr frábært skot innan úr teig sem small í fjærhornið. Frábærlega gert hjá Nökkva og staðan orðinn 1-1. Adam var þó ekki lengi í paradís hvað KA varðar en Oliver Heiðarson kom gestunum aftur yfir aðeins þremur mínútum seinna. Góð sending frá Birni Inga inn fyrir vörn KA, Steinþór kominn heldur langt út úr markinu og Oliver chippaði boltanum yfir Steinþór.

Á 84. mínútu leiksins fékk Dusan Brkovic að líta sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt fyrir vægt brot út á velli. KA menn þar með orðnir manni færri, umdeildur dómur og en harðnaði í álnum hjá KA sem þurfti tvö mörk til að ná þriðja sætinu sem mögulega gefur Evrópusæti seinna meir.

KA fékk dæmda vítaspyrnu á 92. mínútu leiksins eftir að brotið var á Elfari innan teigs. FH-ingar voru allt annað en sáttir. Hallgrímur Mar steig á vítapunktinn og brast ekki bogalistinn. Staðan þar með orðinn 2-2.

KA fékk aukaspyrnu fyrir utan teig FH á lokasekúndunum og spennan mikill. Þeir náðu hins vegar ekki að gera sér mat úr því. Niðurstaðan 2-2 og KA endar í fjórða sæti deildarinnar og Evrópudraumur þeirra úti.

Afhverju gerðu liðin jafntefli?

Það stefndi allt í sigur gestanna þar til KA fékk þessa umdeildu vítaspyrnu sem þeir skora úr. Annars voru bæði lið að fara illa með ágætis færi.

Hverjir stóðu upp úr?

Varnarlínu beggja liða héldu vel þrátt fyrir þessi mörk. Þá voru Björn Daníel, Logi Hrafn og Matthías flottir í liði FH. Miðjumenn KA oftar en ekki undir í baráttunni gegn þeim. Í liði KA var Þorri Mar góður en hann duglegur að koma sér upp kantinn og stóð vörnina af nokkrum sóma.

Hvað gekk illa?

KA menn voru á eftir í flestum aðgerðum og virkuðu ekki eins og þeir væru að spila upp á þetta mikilvæga þriðja sæti. Lykilsendingar hjá KA voru að klikka og að tengja spil á síðasta þriðjung reyndist þeim oft erfitt. Þá fóru bæði lið illa með ákjósanlegar stöður.

Hvað gerist næst?

Framundan er frí hjá báðum liðum. Deildin er búinn og niðurstaðan súr fyrir bæði lið. KA var í dauðafæri á því að klára deildina í þriðja sæti og hljóta að vera svekktir út í sjálfa sig. FH er vant því að gera betur í deildinni en þeir gerðu þetta árið.

Arnar Grétarsson: Við eigum meira inni

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var súr og svekktur eftir að liðið missti af þriðja sæti Pepsi Max deildarinnar.Vísir/Hulda Margrét

„Ég hef oft séð okkur betri. Ég ætla ekki að taka neitt af FH-ingum, þeir hafa verið á góðu skriði og hafa verið að spila mjög vel. Þeir komu mjög grimmir til leiks. Það má vel vera að spennustigið hafi kannski verið aðeins of hátt en að því sögðu þá var FH ekki að skapa mikið í leiknum. Markið sem við fáum á okkur er mjög leiðinlegt því Stubbur er búinn að vera frábær í markinu í sumar en hann gerir mistök og þannig er nú þessi leikur. Mistök eru þess valdandi að annað hvort liðið skorar yfirleitt. Svo jöfnum við leikinn í seinni hálfleik en fáum mark á okkur strax í kjölfarið. Í því marki hefðum við líka geta varist betur,“ sagði Arnar Grétarsson þjálfari KA eftir súrt jafntefli á móti FH á Greifavellinum í dag.

„Ég er hrikalega svekktur að hafa ekki náð í þessi þrjú stig til að eiga smá von um Evrópusæti en á sama tíma er ég gríðarlega stoltur af strákunum og því sem þeir hafa gert. Við höfum sýnt að við getum keppt um þessi efstu sæti og metnaðurinn hjá okkur var að vera ofar en við erum í töflunni. Það er ánægjulegt að sjá að strákarnir eru drullufúlir með að ná ekki þessum þremur stigum. Það segir mér að þeir eru komnir á góðan stað. Það er eitthvað til að byggja á.“

„Við vorum ekki að taka góðar ákvarðanir, það var of mikið af slökum sendingum. Mörkin sem við fáum á okkur er bæði mjög ódýr mörk og meðan það voru 11 og 11 inn á vellinum þá fannst mér við vera líklegri til að fá stöður til að gera eitthvað. Þorri var til dæmis að komast trekk í trekk upp völlinn og inn á teig en það þarf að nýta þetta og það er það sem vantaði upp á í dag. Það er náttúrulega svekkjandi, vitandi hvað er mikið undir en þetta er svona. Liðið er ungt á þessum stað og þarf að læra sem við erum alltaf að gera.“

Dusan Brkovic fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 84. mínútu og var Arnar allt annað en sáttur við þanndóm

„Ég á eftir að sjá þetta en mér fannst þetta glórulaust, bæði spjöldin. Mér fannst vanta allt samræmi hjá dómaranum, bæði kortin mjög væg. Fyrsta spjaldið var mjög soft þar sem þetta var fyrsta brot hjá honum og í öðru spjaldinu þá veit ég ekki hvað Einar var að dæma á. Ég veit heldur ekki með þennan vítadóm en mér fannst margar ákvarðanir í dag mjög skrítnar. Það er mjög blóðugt að missa Dusan út af og hann er þá kannski í banni í 3-4 leiki á næstu leiktíð. Svo framanlega sem hann verður hjá okkur áfram. Það er gríðarlega svekkjandi.“

Spurður út í leikmannamálin fyrir næsta tímabil, hafði hann þetta að segja.

„Það eru í raun allir á samning, sumir eru á eins árs samning og komnir á ákveðinn aldur. Það verður samt ekkert vesen. Þeir sem hafa hins vegar ekki verið á samning eru Dusan, Mark og Mikkel. Frábærir leikmenn sem við erum að ræða við og sjá hvað er hægt að gera varðandi samning. Vonandi náum við að landa meirihlutanum af þeim en að öðru leiti eru allir á samning.“

Arnar er ekki sáttur með niðurstöðuna í deildinni en ánægður með heildar frammistöðuna í sumar.

„Nei ég er alls ekki sáttur en eins og ég segi er ég gríðarlega sáttur heilt yfir með frammistöðu liðsins í sumar en ég vill meina að við eigum meira inni og að við hefðum geta farið lengra en þetta er alltaf ef og hefði. Við erum búnir að vera sjálfum okkur verstir í ansi mörgum leikjum og en sýnir samt hvert við erum komnir.“

Það er staðfest að Arnar Grétarsson mun halda áfram með KA næsta sumar.

„Ég skrifaði undir tveggja ára samning í fyrra en það er alltaf gluggi í október sem opnast þar sem báðir aðilar geta labbað í burtu og í raun var bara verið að loka því. Það eru ákveðnir hlutir sem ég er að bíða eftir sem þeir lofa mér þeim. Þannig ég vona að það verði þannig.“

Davíð Þór Viðarsson: Við förum ekkert í felur með það að 33 stig fyrir FH er alls ekki nógu gott

Davíð Þór Viðarsson er búinn að vera nokkuð sáttur með frammistöðu liðsins í seinustu leikjum, en segir að FH eigi að gera miklu betur en liðið hefur gert heilt yfir í sumar.Vísir/Bára Dröfn

„Við erum svekktir að hafa ekki náð að halda út en svona heilt yfir þá eru við mjög ánægðir með frammistöðuna okkar í dag. Enn einn leikurinn seinni hluta móts þar sem við höfum spilað vel og getum verið ánægðir með frammistöðuna,“ sagði Davíð Þór aðstoðaþjálfari FH eftir 2-2 jafntefli gegn KA á Akureyri í dag.

„Í fyrri hálfleik fannst mér við pressa þá mjög vel. Við gáfum þeim aldrei tíma á boltanum, unnum boltann oft hátt uppi og fundum þokkalega launsir. Bjuggum til margar álitlegar sóknir. Í seinni hálfleik eigum við að vera búinn að klára leikinn. Þeir eru auðvitað að leita að marki og við fáum frábært tækifæri til að gera út um leikinn en náum því ekki. Þegar þú ert með svona lítið forskot þá þarf ekki mikið til að missa leikinn niður í jafntefli og það því miður gerðist í dag.“

Hann var spurður út í vítadóminn.

„Ég sá þetta ekkert en ég var aðallega óánægður að mér fannst dómarinn ekki sjá þetta heldur en hann sagði eftir leikinn að þetta hafi verið klárt brot og ég hef svo sem ekkert út á það að setja svona eftir á. Hann sér eitthvað, er miklu nær en við þannig þetta var örugglega víti.“

FH klára mótið í 6. sæti deildarinnar.

„Síðustu 7-8 leikir sem við höfum spilað höfum við verið að taka mikið af stigum og margt mjög jákvætt. Fullt af ungum strákum sem hafa fengið stærri hlutverk og hafa skilað því alveg hrikalega vel. Við erum ánægðir með það og það er klárlega eitthvað til að byggja ofan á. Við förum hins vegar ekkert í felur með það að 33 stig fyrir FH er alls ekki nógu gott. Við þurfum að fara yfir málin og sjá hvar við getum bætt okkur til að við verum mun ofar í töflunni á næsta ári.“

Það er ekkert ákveðið með Óla Jóhannsson þjálfara FH fyrir næsta ár. Hann tók við liðinu seint í sumar.

„Það á eftir að koma í ljós. Fyrst ætluðum við að klára tímabilið og svo er bara að setjast niður og fara yfir málin. Ákveða hvernig þessu verður háttað.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira