Íslenski boltinn

Jafn­tefli í loka­leik Lengju­deildar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alex Freyr Hilmarsson skoraði fyrir Kórdrengi í dag.
Alex Freyr Hilmarsson skoraði fyrir Kórdrengi í dag. Facebook/Kórdrengir

Kórdrengir misstu frá sér tveggja marka forystu á Ísafirði er liðið gerði 3-3 jafntefli við Vestra í lokaleik tímabilsins í Lengjudeild karla. Um var að ræða frestaðan leik og því var þetta síðasti leikur deildarinnar áður en haldið er í frí.

Ekki virðist sem bílferðin hafi setið í Kórdrengjum en liðið var komið 2-0 yfir eftir aðeins tuttugu mínútna leik yfir þökk sé næstum nöfnunum Alex Frey Hilmarssyni og Axel Frey Harðarsyni.

Martin Montipo minnkaði muninn eftir hálftíma leik og Pétur Bjarnason jafnaði metin í þann mund er flautað var til hálfleiks. Staðan því 2-2 er liðin gengu til búningsherbergja.

Leonard Sigurðsson kom Kórdrengjum yfir þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiksloka en Nacho Gil átti síðasta orðið þar sem hann jafnaði metin fyrir heimamenn undir lok leiks, lokatölur 3-3.

Kórdrengir enda tímabilið í 4. sæti með 41 stig á meðan Vestri situr í 6. sæti með 36 stig. Tímabilið er þó ekki búið hjá Vestra þar sem liðið er komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×