Innlent

Bíður milli vonar og ótta: „Ég skil ekkert í þessum tölum“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
sigmar1 (002)

Sig­mar Guð­munds­son, sem situr í öðru sæti Við­reisnar í Suð­vestur­kjör­dæmi, er einn þeirra jöfnunar­manna sem eru afar tæpir inn á þing. Hann hefur verið inni í jöfnunar­sæti í síðustu tveimur tölum sem birtar voru úr kjör­dæminu en hvort hann komist inn sem kjör­dæma­kjörinn þing­maður mun ráðast þegar loka­tölur úr Suð­vestur­kjör­dæmi verða birtar, lík­lega á næsta klukku­tímanum.

Nú munar 584 at­kvæðum á Sig­mari og Guð­mundi Inga Kristins­syni, hjá Flokki fólksins, sem er síðasti kjör­dæma­kjörni þing­maðurinn í Kraganum miðað við síðustu tölur. Ef Sig­mar fer ekki inn sem kjör­dæma­kjörinn þing­maður gæti tekið við enn lengri bið eftir að loka­tölur liggi fyrir í öllum kjör­dæmum því þær gætu haft á­hrif á jöfnunar­sætin annars staðar.

„Það veit auð­vitað enginn hvernig þetta fer. Það er bara fullt af fólki sem er í sömu stöðu og ég núna og bíður eftir því að sjá hvað kemur út úr þessu sy­stemi,“ segir Sig­mar í sam­tali við frétta­stofu.

Hann kvaðst liggja í hálf­gerðu móki fyrir framan sjón­varpið að reyna að halda sér vakandi.

Sat eins og asni eftir fyrstu tölur

„Þegar fyrstu tölurnar bárust þá sat ég náttúru­lega bara eins og asni með Krist­rúnu Frosta­dóttur í beinni út­sendingu. Það voru hræði­legar tölur og þá var ég sann­færður um að þetta væri búið spil,“ segir Sig­mar.

Við­reisn var með 7,7 prósent talinna at­kvæða í fyrstu tölum úr kjör­dæminu og þá ekkert út­lit fyrir að Sig­mar næði inn. Mikið flökt hefur verið á tölunum í Kraganum í alla nótt en Við­reisn er með 12,1 prósenta fylgi þar sam­kvæmt fjórðu og nýjustu tölunum.

„Þannig ég átta mig engan veginn á því hvort að við eigum eftir að fara upp eða niður í loka­tölunum,“ segir Sig­mar. „Ég skil ekkert í þessum tölum. Af hverju þær hafa breyst svona svaka­lega í talningunni í Suð­vestur­kjör­dæmi.“

Hann segir kosningarnar hafa komið sér á ó­vart og að ríkis­stjórnin hafi sigrað með af­gerandi hætti. „Maður óskar ríkis­stjórninni auð­vitað til hamingju með það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×