Ingi Tryggvason, yfirmaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, segir að kjörstjórn hafi ákveðið að telja atkvæðin aftur vegna lítils munar. Enginn flokkur hafi farið fram á endurtalningu.
„Við ákváðum þegar við sáum að það væri lítill munur að við myndum endurtelja. Við viljum bara útiloka það að þetta sé ekki í lagi,“ segir hann við Vísi.
Atkvæði hafi verið talin aftur að hluta í öðrum kjördæmum en Ingi hafði ekki upplýsingar um í hvaða kjördæmum.
Hann segist bíða eftir talningarfólki. Endurtalningin ætti að taka tvær til þrjár klukkustundir.
Býst hann ekki við að endurtalningin hafi áhrif á hversu marga þingmenn flokkarnir fá en að hún gæti víxlað jöfnunarsætum á milli kjördæma.
Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar, er jöfnunarþingmaður í Norðvesturkjördæmi miðað við þær tölur sem hafa verið birtar.
Fréttin verður uppfærð.