Sport

Dak flottur í fyrsta heimaleiknum eftir meiðslin skelfilegu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dak Prescott og Cedrick Wilson fagna snertimarki hjá Dallas liðinu í nótt.
Dak Prescott og Cedrick Wilson fagna snertimarki hjá Dallas liðinu í nótt. AP/Michael Ainsworth

Dallas Cowboys hafði mikla yfirburði í fyrsta heimaleik tímabilsins þegar liðið vann 41-21 sigur á Philadelphia Eagles í NFL deildinni í nótt.

Fyrir ári síðan yfirgaf Dak Prescott leikvöllinn grátandi á hnjaskvagni eftir hryllileg ökklameiðsli en hann missti af stærsta hluta tímabilsins vegna þeirra. Meiðslin urðu í fimmta leik síðasta tímabils og eftir það fór nær allt bit úr leik Kúrekanna.

Prescott hefur komið sterkur til baka og sýndi það og sannaði í leiknum í nótt.

Prescott gaf þrjár snertimarkssendingar í leiknum og leiddi sína menn til öruggs sigurs.

Cowboys liðið tapaði fyrsta leik leiktíðarinnar á móti meisturum Tampa Bay Buccaneers en hefur unnið báða leiki sína síðan.

„Ég er þakklátur fyrir allt sem ég hef gengið í gegnum, alla vinnuna sem ég hef lagt á mig til að komast aftur í að gera það sem ég elska sem er að spila fótbolta. Það er hvergi betri staður til að spila fótbolta en hér,“ sagði Dak Prescott eftir leikinn.

Hlauparinn Ezekiel Elliott náði sér aftur á strik en hann fór 95 jarda með boltann og skoraði tvö snertimörk. Innherjinn Dalton Schultz skoraði líka tvö snertimörk í sama leiknum í fyrsta sinn á hans ferli.

Það voru líka margir stuðningsmenn Dallas liðsins mættir til að fagna endurkomu Prescott. Hann hafði reyndar spilað tvo útileiki með liðinu en fyrsti heimaleikurinn var alltaf ákveðin tímamót. Áhorfendur voru yfir 93 þúsund á leiknum í AT&T leikvanginum í nótt.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×