Enski boltinn

Man Utd horfir til Leeds í leit að miðju­manni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Færir Phillips sig yfir í rautt á komandi misserum?
Færir Phillips sig yfir í rautt á komandi misserum? Stu Forster/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur augastað á Kalvin Phillips, miðjumanni Leeds United, samkvæmt nýjasta slúðri Bretlandseyja.

Ole Gunnar Solskjær hefur horft til Lundúna í dágóða stund í þeirri von um að Declan Rice gæti verið maðurinn til að leysa miðjuvandræði Man United. West Ham United hefur hins vegar engan áhuga á að selja hinn 22 ára gamla Rice og virðist sem áhugi Solskjær hafi dvínað töluvert undanfarnar vikur.

Solskjær horfir nú til mannsins sem stóð vaktina með Rice á miðri miðju enska landsliðsins á Evrópumótinu í sumar. Um er að ræða hinn 25 ára gamla Kalvin Phillips sem leikur með Leeds United. 

Leeds United hefur sett 60 milljón punda verðmiða á þennan hárprúða leikmann sem er þó töluvert minna en 100 milljónirnar sem West Ham vill fá fyrir Rice. 

Hvort eitthvað meira komi úr áhuga Man Utd á leikmanninum er óvíst. Það er hins vegar ljóst að Phillips þyrfti að hóa fjölskylduna saman og útskýra mál sitt ef hann ákveður að færa sig um set.

Það hefur andað köldu milli Man Utd og Leeds í fleiri ár og samkvæmt miðlum ytra ku fjölskylda leikmannsins hafa óbeit á öllu sem rautt er og kemur frá Manchester-borg.

Þegar sex umferðir eru búnar af ensku úrvalsdeildinni er Manchester United í 4. sæti með 13 stig á meðan Leeds United er í 18. sæti með þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×