Erlent

Atlanta-morðinginn lýsir yfir sakleysi

Samúel Karl Ólason skrifar
Robert Aaron Long hefur þegar játað að hafa skotið fjóra til bana.
Robert Aaron Long hefur þegar játað að hafa skotið fjóra til bana. Getty

Maður sem hóf skothríð á þremur nuddstofum í Atlanta í Bandaríkjunum og úthverfi borgarinnar í mars segist saklaus gagnvart nýjustu ákærunum gegn honum. Maðurinn skaut átta til bana og þar af sex konur af asískum uppruna.

Árásir Robert Aaron Long, sem er 22 ára gamall, áttu sér stað í tveimur sýslum í Atlanta og því fóru tvenn málaferli fram. Þar er um að ræða Cherokee-sýslu og Fulton-sýslu.

Long var dæmdur í lífstíðarfangelsi í Cherokee-sýslu í sumar þegar hann játaði að hafa skotið fjóra til bana í fjöldamorði hans í mars. Nú segist hann saklaus af því að hafa skotið fjóra aðra til bana í Fulton-sýslu.

Saksóknari Fulton-sýslu hefur farið fram á dauðarefsingu, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Það vakti töluverða reiði vestanhafs þegar talsmaður fógeta Cherokee-sýslu sagði að Long hefði átt „mjög slæman dag“ og því hafði hann skotið fólkið til bana. Var lögregluþjónninn sagður draga úr alvarleika málsins. Þetta var á tíma þegar ofbeldi og árásir gegn Bandaríkjamönnum af asískum uppruna jókst mjög.

Sjá einnig: Ákærður fyrir átta morð eftir „mjög slæman dag“

Árásin hófst í Cherokee-sýslu þar sem Long skaut fimm manns á nuddstofu, þar af af fjögur til bana. Hann keyrði svo tæpa fimmtíu kílómetra til Atlanta þar sem hann skaut þrjár konur til bana á annarri nuddstofu og þá fjórðu á einni nuddstofu til viðbótar hinu megin við götuna.

Því næst keyrði Long til suðurs og segja yfirvöld að hann hafi ætlað sér að skjóta fleiri manns í Flórída. Foreldrar hans siguðu þó lögreglunni á hann eftir að þau báru kennsl á hann á myndum úr öryggismyndavélum sem lögreglan í Cherokee-sýslu birti.

Foreldrar hans fylgdust með ferðum Long í gegnum síma hans og gátu vísað lögregluþjónum á hann.

Fórnarlömb Long í Cherokee-sýslu voru Paul Michels (54ára, Xiaojie „Emily“ Tan (49 ára). Daoyou Feng (44 ára) og Delaina Yaun (33 ára). Í Atlanta voru fórnarlömb hans: Suncha Kim (69 ára), Soon Chung Park (74 ára), Hyun Jung Grant (51 árs) og Yong Ae Yue (63 ára).

Í frétt Reuters segir að Long hafi í réttarhöldunum í sumar sagt frá því að hann hafi keypt sér byssu og viskí og ætlað að svipta sig lífi vegna iðrunar sökum kynlífsfíknar sem Long sagðist þjást af.

Hann sagðist þó hafa hætt við það og þess í stað skaut hann átta manns til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×