Innlent

Gestir á kosningavöku Framsóknar sendir í sóttkví

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikið líf var í kosningavöku Framsóknar og margt um manninn.
Mikið líf var í kosningavöku Framsóknar og margt um manninn. Vísir/vilhelm

Gestur í kosningavöku Framsóknarflokksins sem fram fór á kjördag hefur greinst með Covid-19. Einstaklingar sem hafa verið útsettir fyrir smiti eru komnir í sóttkví og aðrir gestir beðnir um að vera vakandi fyrir einkennum.

Þetta kemur fram í smáskilaboðum sem Framsókn sendi út til gesta í kvöld. Þar er viðtakendum þakkað fyrir komuna á kosningavökuna og þeir jafnframt hvattir til að fara í sýnatöku komi fram einhver einkenni.

Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar, staðfestir að gestur hafi greinst með Covid-19. Búið sé að senda á þá sem voru útsettir fyrir smiti. 

Lægri meðalaldur hjá Framsókn

Troðfullt var út úr dyrum á kosningarvöku Framsóknarflokksins úti á Granda á laugardagskvöld. Færri komust að en vildu og var hópur fólks fyrir utan sem beið í von um að einhverjir færu heim og pláss gæti myndast. Einhverjir voru svo svekktir yfir því að fá ekki að fara inn að þeir reyndu að rífast við dyravörðinn en án árangurs.

Þá ætlaði allt um koll að keyra þegar rapparinn Herra Hnetusmjör steig á svið og tók nokkur lög. Að sögn útsendara Vísis var meðalaldurinn mun lægri hjá Framsókn en í öðrum kosningapartýum flokkanna þetta sama kvöld.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×