Í tilkynningu sem fylgir bréfinu segir að ófremdarástand hafi skapast á deildinni fyrr í vikunni. Þá hafi yfir 70 sjúklingar legið á deildinni, þar af 44 sem biðu innlagnar á aðrar deildir spítalans en komust ekki inn sökum þess að þær voru fullsetnar og neituðu að taka við sjúklingum.
Lengi hefur verið rætt um erfiða stöðu á bráðamóttökunni, en aðspurður um hvort ekkert hafi gerst í þessum málum sagði Bergur Stefánsson, formaður Félags bráðalækna, í kvöldfréttum Stöðvar 2 að það væri erfitt að koma fólki í skilning um stöðu mála. Loforð um úrbætur hafi ekki skilað neinum árangri.
„Þegar við lendum undir miklu álagi, sérstaklega á stofnun eins og Landspítalanum, sem er alltaf keyrð á yfirálagi, er mikilvægt að þarna sé góð og virk stjórnun. Allar deildir, allur spítalinn þarf að koma saman sem ein heild og taka þau verkefni sem eru fyrir höndum.“
Í tilkynningunni segir að stjórn spítalans hafi „með ráðaleysi sínu breytt Bráðamóttökunni í legudeild“. Engin virk álagsstjórnun sé á LSH og í raun sé spítalinn stjórnlaus.
Félagið krefst tafarlausra aðgerða en aðspurður um hvort þau krefjist þess að stjórnin eða forstjóri fari frá segir Bergur:
„Núverandi stjórn hefur verið meira eða minna óbreytt síðustu tíu ár. Hún hefur að hluta til verið þáttakandi í að búa til þetta ástand sem er í gangi og hefur sýnt það að hún er ekki hæf í að leysa þetta.“