Íslenski boltinn

Áfram hjá KA en fær ekki að spila fyrstu þrjá leikina

Sindri Sverrisson skrifar
Dusan Brkovic var öflugur í vörn KA en fékk þrisvar rautt spjald á leiktíðinni.
Dusan Brkovic var öflugur í vörn KA en fékk þrisvar rautt spjald á leiktíðinni. vísir/Hulda Margrét

Miðvörðurinn öflugi Dusan Brkovic verður áfram í liði KA á næstu fótboltaleiktíð. Hann fékk nýjan samning hjá félaginu þó að ljóst sé að hann missi af fyrstu þremur leikjum tímabilsins.

Brkovic fékk að líta rauða spjaldið alls þrisvar sinnum í sumar, síðast í lokaumferðinni þegar KA gerði 1-1 jafntefli við FH og rétt missti af 3. sæti deildarinnar. Hann var því úrskurðaður í þriggja leikja bann á fundi aga- og úrskurðarnefndar og það bann fylgir honum yfir á næstu leiktíð.

Brkovic lék alls 20 leiki í deild og bikar fyrir KA í sumar og skoraði eitt mark. Hann átti stóran þátt í því að KA fékk næstfæst mörk á sig í deildinni eða 20 mörk í 22 leikjum.

Brkovic er 32 ára gamall og kom til KA fyrir nýliðið tímabil. Hann hefur leikið yfir 150 leiki í Ungverjalandi og varð ungverskur meistari árið 2014. Hann hefur einnig leikið um 70 leiki í efstu deild í Serbíu en kom til KA frá Diósgyöri í Ungverjalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×