Fótbolti

Blikar skrúfa upp í ljósunum og fá að spila á Kópavogsvelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blikar fagna því væntanlega að geta spilað á heimavelli sínum gegn Paris Saint-Germain á miðvikudaginn.
Blikar fagna því væntanlega að geta spilað á heimavelli sínum gegn Paris Saint-Germain á miðvikudaginn. vísir/Hulda Margrét

Breiðablik hefur fengið undanþágu frá UEFA til að spila leikinn gegn Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu á Kópavogsvelli.

Þetta staðfesti Sigurður Hlíðar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net.

Ekki var ljóst hvort Breiðabliki fengi leyfi til að spila á Kópavogsvelli þar sem fljóðljósin þar uppfylla ekki kröfur UEFA. En Blikar munu skrúfa upp í ljósunum og fengu því undanþágu til að spila leikinn gegn PSG á miðvikudaginn á heimavelli. Ef undanþágan hefði ekki fengist hefði leikurinn farið fram á Laugardalsvelli.

„Það er staðfest að leikurinn verður á Kópavogsvelli. Staðan er þannig að það er koma aðili til þess að reyna auka ljósmagnið á því sem er til staðar og UEFA ætlar að láta það duga. Við vonum að það gangi upp í öllum leikjunum en þessi fyrsti leikur verður a.m.k. spilaður á Kópavogsvelli,“ sagði Sigurður við Fótbolta.net.

Leikurinn gegn PSG á miðvikudaginn verður kveðjuleikur Vilhjálms Kára Haraldssonar með Breiðablik en Ásmundur Arnarsson tekur við starfi hans eftir leikinn. Vilhjálmur verður Ásmundi þó innan handar í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Ásmundur stýrir Blikum í fyrsta sinn gegn Real Madrid á útivelli 13. október.

Breiðablik varð bikarmeistari í þrettánda sinn á föstudaginn eftir 4-0 sigur á Þrótti. Karítas Tómasdóttir skoraði tvö mörk fyrir Blika og Tiffany McCarty og Hildur Antonsdóttir sitt markið hvor.

Breiðablik tryggði sér sæti í nýrri riðlakeppni Meistaradeildarinnar með 4-1 samanlögðum sigri á Osijek frá Króatíu í umspili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×