Erlent

Fundu 2.700 ára gamalt klósett í Jerúsalem

Samúel Karl Ólason skrifar
Fornleifafræðingar vonast til þess að það sem finna má í rotþró klósettsins geti varpað ljósi á matarræði íbúa borgarinnar á árum áður.
Fornleifafræðingar vonast til þess að það sem finna má í rotþró klósettsins geti varpað ljósi á matarræði íbúa borgarinnar á árum áður. AP/Yoli Schwartz

Ísraelskir fornleifafræðingar fundu nýverið rúmlega 2.700 ára gamalt einkaklósett í Jerúsalem. Slíkt var mjög sjaldgæft á þessum tíma og aðeins hinir ríkustu gátu verið með klósett heima hjá sér.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar er klósettið úr kalksteini og fannst það í smáu herbergi í rústum stórs húss í gömlu borg Jerúsalem. Klósettið var hannað svo fólk gæti setið á því og hafði stór rotþró verið grafin undir því.

Til viðbótar við klósettið fundust ummerki garðs sem innihélt vatnaplöntur og þykja það frekari vísbendingar um að íbúar hússins hafi verið verulega auðugir.

Fornleifafræðingarnir sem fundu klósettið vonast til þess að bein og krukkur sem finna má í rotþrónni geti varpað ljósi á mataræði ríks fólks í Jerúsalem fyrir 2.700 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×