Sport

Miðfingur Russell Wilson gæti þýtt að hann missi af fyrsta NFL leiknum í tíu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Wilson veifar stuðningsmönnum Seattle Seahawks þegar hann yfirgefur völlinn meiddur á kasthendinni.
Russell Wilson veifar stuðningsmönnum Seattle Seahawks þegar hann yfirgefur völlinn meiddur á kasthendinni. AP/Elaine Thompson

Seattle Seahawks liðið tapaði ekki aðeins 26-17 á heimavelli á móti Los Angeles Rams í nótt því liðið missti líka járnmanninn og leikstjórnandann trausta Russell Wilson meiddan af velli.

Seahawks kláraði leikinn án Wilson eftir mann tognaði illa á miðfingrinum á kasthendi sinni í þriðja leikhlutanum. Ef eitthvað þarf að vera í lagi hjá leikstjórnanda þá er það sjálf kasthöndin.

Russell Wilson hefur spilað með Seattle Seahawks frá árinu 2012 og hefur aldrei misst af leik. Leikurinn í gær var hann 149. í röð og leikirnir eru orðnir 165 í röð ef við tökum með úrslitakeppnina.

Síðast byrjaði Seattle Seahawks leik án Wilson 1. janúar 2012 á móti Arizona Cardinals.

„Við verðum að finna út úr þessu. Ég get ekki sett upp neina tímalínu núna,“ sagði Pete Carroll, þjálfari Seahawks liðsins um meiðsli leikstjórnandans síns eftir leikinn.

Eftir þennan sigur í nótt er Los Angeles Rams með fjóra sigra í fyrstu fimm leikjum sínum. Seattle hefur aftur á móti tapaði þremur af sínum fimm leikjum.

Næsti leikur Seattle er á útivelli á móti Pittsburgh Steelers 17. október næstkomandi.

Darrell Henderson, hlaupari Rams, fór 82 jarda með boltann og skoraði snertimark sem kom liðinu yfir í fyrsta sinn í leiknum. Seattle var 7-3 yfir í hálfleik.

Innherjinn Tyler Higbee og hlauparinn Sony Michel skoruðu líka snertimörk fyrir Rams liðið sem fóru langt með að tryggja sigurinn.

Útherjinn DK Metcalf skoraði tvö snertimörk í leiknum, annað þeirra eftir sendingu frá Wilson en hitt eftir sendingu frá Gino Smith, sem kom inn þegar Russell meiddist.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×