Enski boltinn

Jafnt í borgarslagnum í Manchester | María spilaði allan leikinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
María fagnar öðru af mörkum Man Utd með stöllum sínum.
María fagnar öðru af mörkum Man Utd með stöllum sínum. Chloe Knott/Getty Images

Manchester United og Manchester City gerðu 2-2 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. María Þórisdóttir lék allan leikinn í miðri vörn Man United.

Fyrri hálfleikur var stál í stál en gestirnir urðu fyrir áfalli þegar tíu mínútur voru til hálfleiks, Georgia Stanway var þá rekin af velli og gestirnir tíu á móti 11 það sem eftir lifði leiks. Það kom ekki að sök þar sem Khadija Shaw kom City yfir aðeins þremur mínútum síðar og staðan var 1-0 gestunum í vil í hálfleik.

Þannig var staðan allt þangað til á 72. mínútu þegar flóðgáttirnar opnuðust. Lucy Staniforth jafnaði metin og aðeins þremur mínútum síðar skoraði Alessia Russo annað mark Man Utd og staðan orðin 2-1. Eva var þó ekki lengi í paradís og Ellen White jafnaði aðeins fjórum mínútum síðar.

Staðan orðin 2-2 og reyndust það lokatölur leiksins. Eftir leikinn eru María og stöllur hennar í 3. sæti með 10 stig að loknum fimm umferðum. Man City er í tómu tjóni þessa dagana en liðið er með 4 stig í 9. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×