Sport

Örn og Haukur Clausen út­nefndir í Heiðurs­höll ÍSÍ í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bræðurnir Haukur og Örn Clausen.
Bræðurnir Haukur og Örn Clausen. ÍÞRÓTTA- OG ÓLYMPÍUSAMBAND ÍSLANDS

Tvíburabræðurnir og frjálsíþróttamennirnir Örn og Haukur Clausen voru útnefndir í Heiðurshöll ÍSÍ á framhaldsþingi 75. íþróttaþings ÍSÍ í dag. Þeir eru 21. og 22. einstaklingurinn sem hljóta útnefningu í hina óáþreifanlegu höll afreksíþróttafólks og afreksþjálfara Íslands.

Örn og Haukur Clausen voru eineggja tvíburar, fæddir 8. nóvember 1928. Þeir bræður voru einna fremstir íslenskra íþróttamanna á gullöld íslenskra frjálsíþrótta fyrir og um 1950. Þeir kepptu fyrir hönd ÍR og fóru mikinn í landsliði Íslands í frjálsíþróttum á keppnisferli sínum.

Alls setti Örn tíu Íslandsmet í grindahlaupum og tugþraut. Hann varð í 12. sæti í tugþraut á Ólympíuleikunum í London árið 1948, þá aðeins nítján ára að aldri. Árið 1949 sigraði hann í tugþraut á Norðurlandameistaramótinu í Stokkhólmi. Hann vann silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í tugþraut 1950 og setti Norðurlandamet í sömu grein ári síðar. Það ár átti hann næstbesta tugþrautarárangur í heimi.

Haukur varð Norðurlandameistari í 200 metra hlaupi aðeins 18 ára gamall árið 1947 er hann hljóp á nýju Íslandsmeti, 21,9 sek. Hann keppti á Ólympíuleikunum í London árið 1948 og kom 13. í mark í 100 metra hlaupi.

Á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Brussel 1950 komst hann í úrslit í 100 metra hlaupi og varð í 5. sæti. Sumarið 1950 setti hann Norðurlandamet í 200 metra hlaup á, 21,3 sekúndu. Það var besti tími ársins í Evrópu og stóð Norðurlandametið í sjö ár en það var einnig Íslandsmet sem stóð í 27 ár. Haukur átti allmörg Íslandsmet í ýmsum frjálsíþróttagreinum.

Haukur lést 1. maí 2003 og Örn lést 11. desember 2008. Guðrún Erlendsdóttir, ekkja Arnar, og Elín Hrefna Thorarensen, ekkja Hauks, tóku á móti viðurkenningunum fyrir hönd þeirra bræðra í dag undir standandi lófataki forystufólks ÍSÍ, þingfulltrúa og gesta.

Nánari upplýsingar um Heiðurshöll ÍSÍ er að finna á heimasíðu ÍSÍ og þar er skrá yfir alla þá sem hafa verið útnefndir í Heiðurshöllina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×