Í grein á síðunni Arirang Meari.com segir að þættirnir endurspegli raunverulegt samfélag Suður-Kóreu og spillingu þar.
Í mjög stuttu máli sagt og án spennuspilla fjallar Squid Game um fátækt og skuldsett fólk sem er fengið til að taka þátt í hinum ýmsu barnaleikjum þar sem tap þýðir dauði. Markmiðið er að standa einn eftir og vinna fúlgur fjár.
Arirangmeari hefur eftir ónafngreindum sjónvarpsgagnrýnenda í Suður-Kóreu að þættirnir sýni ójafnt samfélag þar sem ríkt fólk komi fram við fátækt fólk eins og peð.
„Sagt er að vegna þáttanna átti fólki sig á raunveruleika skepnulegs samfélags Suður-Kóreu þar sem mannverur eru drifnar áfram í öfgafullri samkeppni og manneðli þeirra þurrkað út,“ segir í greininni, samkvæmt frétt Reuters.
Ríkisstjórn Kim Jong Un hefur að undanförnu beitt sér harkalega gegn íbúum Norður-Kóreu sem hafa horft á afþreyingarefni frá Suður-Kóreu og öðrum ríkjum.
Sjá einnig: Fangelsi og jafnvel dauðadómur fyrir vörslu erlends afþreyingarefnis
Arirang Meari eru reglulega notuð til að gagnrýna menningu í Suður-Kóreu, samkvæmt Reuters. Fyrr á þessu ári var síðunni beitt gegn K-pop. Þá var því haldið fram að poppstjörnur Suður-Kóreu væru þrælar stórfyrirtækja og lifðu ömurlegu lífi.
Þá var því haldið fram á miðlinum í fyrra að myndin Parasite væri meistaraverk sem varpaði ljósi á raunverulega stéttaskiptingu í Suður-Kóreu.