Fótbolti

Staflaði þrem boltum ofan á hvern annan og smellti þeim svo öllum í skeytin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erling Braut Haaland leikur listir sínar í nýju myndbandi sem birtist á ensku Twitter-síðu þýsku úrvalsdeildarinnar.
Erling Braut Haaland leikur listir sínar í nýju myndbandi sem birtist á ensku Twitter-síðu þýsku úrvalsdeildarinnar. EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Norski sóknarmaðurinn Erling Braut Haaland hefur verið duglegur við að skora mörk frá því að hann skaust fram á sjónarsviðið fyrir örfáum árum. Nú fer nýtt myndband með honum eins og eldur um sinu þar sem hann leikur listir sínar.

Myndbandið byrjar á því að Haaland staflar þrem boltum ofan á hvern annan á vítapunktinum á æfingasvæði Dortmund. Næst stillir hann sér upp og setur svo hvert skotið á fætur öðru upp í samskeytin þar sem að skotmark hangir í þverslánni.

Það er enska Twitter-síða þýsku úrvalsdeildarinnar sem deilir myndbandinu á síðu sinni, en margir vilja þó meina að eitthvað hafi verið átt við myndbandið. Sumir segja að myndbandið minni á fræga klippu af Ronaldinho þar sem hann sést setja sama boltann aftur og aftur í þverslánna af löngu færi.

Myndbandið af Haaland má sjá hér fyrir neðan, en hvort sem um raunveruleika er að ræða eða ekki, þá er í það minnsta hægt að skemmta sér yfir því og jafnvel fá hugmyndir um hvernig best sé að leika þetta eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×