Sport

Vandræðaþumall stoppaði ekki Tom Brady á móti Örnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady öskrar á liðsfélaga sína í Tampa Bay Buccaneers í Philadelphia í nótt.
Tom Brady öskrar á liðsfélaga sína í Tampa Bay Buccaneers í Philadelphia í nótt. Getty/Mitchell Leff

Hlutirnir ganga vel hjá Tom Brady og Tampa Bay Buccaneers liðinu í titilvörn sinni í NFL-deildinni.

Tampa Bay Buccaneers vann 28-22 sigur á Philadelphia Eagles í nótt eftir að hafa verið 28-7 yfir um miðjan þriðja leikhlutann. Ernirnir skoruðu fimmtán síðustu stig leiksins.

Tom Brady mætti til leiks meiddur á þumalputta en kvartaði ekki mikið yfir honum eftir leik. Brady meiddist í leik á móti Miami Dolphins á sunnudaginn en það ekkert stoppa sig.

Brady gaf tvær snertimarkssendingar í leiknum, eina á innherjann OJ Howard og aðra á útherjann Antonio Brown en hlauparinn Leonard Fournette var maður leiksins með tvö snertimörk og fullt af stigum til þeirra sem voru með hann í Fantasy.

Buccaneers liðið hefur nú unnið þrjá leiki í röð og alls fimm af sex leikjum sínum á leiktíðinni.

Hinn 44 ára gamli Brady heldur áfram að spila vel og bæta sín met. 34 af 42 sendingum hans heppnuðust í nótt og hann kastaði alls fyrir 297 jördum.

Kollegi hans Jalen Hurts reyndi að koma með endurkomu og skoraði meðal annars sjálfur tvö snertimörk en Ernirnir komust ekki nær en að minnka muninni í sex stig.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×