„Við erum með áætlun um framkvæmd þriðju sprautunnar og í henni felst að Dönum mun bjóðast þriðja sprautan sex mánuðum og fjórtán dögum eftir aðra sprautuna“, hefur fréttastofa DR eftir ráðherranum.
Hann bætti við að þegar í upphafi síðasta mánaðar hafi verið byrjað að gefa íbúum á hjúkrunarheimilum og öðrum viðkvæmum hópum þriðja skammtinn.
Á næstu mánuðum er ráðlagt að gefa hálfri annarri milljón landsmanna þriðju bólusetningu.
Danir afléttu nýlega öllum smitvarnaraðgerðum vegna Covid-19. Síðasta sólarhring greindust 700 manns með smit og þrír létust.
Þessi 700 smit eru fengin úr rúmlega 60 þúsund PCR-prófum þannig að smithlutfall er 1,16% og er á niðurleið miðað við síðustu daga.