Erlent

Spennan milli Pól­lands og Evrópu­sam­bandsins magnast

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Deilur milli Evrópusambandsins og Póllands virðast bara aukast með hverjum deginum.
Deilur milli Evrópusambandsins og Póllands virðast bara aukast með hverjum deginum. EPA-EFE/PASCAL ROSSIGNOL

Forsætisráðherra Póllands sagðist hafna miðstýringu Evrópusambandsins og sakaði það um að fara yfir öll valdmörk í ræðu sem hann flutti fyrir Evrópuþinginu í Strassbourg í morgun. Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins varaði hann við því að komið geti til aðgerða fallist pólsk stjórnvöld ekki á að fylgja Evrópulögum. 

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, og Ursula von der Leyen, foreti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, voru harðorð í garð hvors annars. Deilur milli sambandsins og Póllands hafa undanfarin misseri orðið harðari eftir því sem pólsk stjórnvöld hafa gagnrýnt forræðishyggju sambandsins meir og meir. 

„Valdsvið Evrópusambandsins er skýrt og við getum ekki setið hjá þegjandi á meðan farið er yfir það valdsvið. Við styðjum evrópska samheldni en ekki evrópska miðstýringu,“ sagði Morawiecki í ræðu sinni í morgun. 

Undanfarin misseri hefur Evrópusambandið gagnrýnt ríkisstjórn póllands vegna lagabreytinga sem margir telja grafa undan sjálfstæði dómstóla. Deilur sambandsins og Póllands náðu þó nýjum hæðum í síðasta mánuði þegar stjórnskipunardómstóll Póllands úrskurðaði að löggjöf, sem innleiða átti innan Evrópusambandsins, bryti í bága við stjórnarskrá landsins. 

Ursula von der Leyen svaraði Morawiecki í morgun og sagði að Evrópusambandið þyrfti að bregðast við úrskurði pólskra dómstóla. Þar kæmi til dæmis til greina að draga málið fyrir dómstóla eða að lokað yrði fyrir fjárstyrki til ríkisins. Grípa þyrfti til aðgerða til að vernda hagsmuni Evrópusambandsins í heild sinni. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×