Neytendastofa sektaði fyrirtækið Cromwell Rugs ehf. nýverið um þrjár milljónir króna fyrir auglýsingar um „krísu-útrýmingarsölu“ á teppum. Alan Talib, eigandi fyrirtækisins, sagðist vera í áfalli í gær vegna ákvörðunarinnar.
Sjá einnig: Þriggja milljóna króna sekt fyrir ólögmæta teppaauglýsingu
Þórunn vildi ekki tala um mál Cromwell Rugs heldur talaði hún á almennum nótum. Aðspurð um það hvort ómögulegt væri fyrir ný fyrirtæki að bjóða tilboðsverð á fyrsta degi, sagði hún svo ekki vera. Meðal annars væri hægt að vera með kynningarverð en þá væri gerð krafa um að varan færi á auglýst fyrra verð þegar kynningartilboðinu lýkur.
„Síðan er auðvitað ekkert sem bannar það að fyrirtæki kynni að það hafi góð verð eða eru með einhverjar aðrar fullyrðingar sem hægt er að sýna fram á,“ sagði Þórunn. Hún sagði að fyrirtæki þyrftu að geta sannað allar fullyrðingar sem komi fram í auglýsingum og þær mættu ekki vera villandi fyrir neytendur.
Hlusta má á Þórunni í spilaranum hér að neðan.
Þórunn sagði Neytendastofu hafa fengið tilkynningar um að útsölur hafi staðið lengur en í sex vikur og mjög margar tilkynningar um að fyrri auglýst verð hafi ekki verið rétt í útsölum. Það sama sé gert í öllum málum sem þessum.
Sjá einnig: Telja krísu-útrýmingarsölu á perneskum teppum í Kópavogi ekki standast lög
Hún sagði sektina gegn Cromwell Rugs ekki vera þá hæstu sem Neytendastofa hefði beitt. Hún var ekki með á hreinu hver hæsta sektin í sambærilegu máli væri en sagði að almennt væri allur sektaramminn notaður. Hann væri að hámarki tíu milljónir.
„En þetta er tiltölulega há sekt. Það er alveg rétt,“ sagði Þórunn.
Þórunn sagði forsvarsmenn fyrirtækja hafa orðið meðvitaðri um reglurnar undanfarin ár. Fjölmargar ábendingar bærust til Neytendastofu en í flestum tilfellum gætu fyrirtækin sýnt fram á að fullyrðingar þeirra ættu rétt á sér.
Nú er mikið verslunartímabil að hefjast og á þessum árstíma berist margar ábendingar til Neytendastofu.