Enski boltinn

Ákall frá Cristiano Ronaldo: Okkar tími er að koma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar sigurmarki sínu fyrir Manchester United á móti Villarreal í síðasta Meistaradeildarleik liðsins.
Cristiano Ronaldo fagnar sigurmarki sínu fyrir Manchester United á móti Villarreal í síðasta Meistaradeildarleik liðsins. EPA-EFE/Peter Powell

Cristiano Ronaldo sendi liðsfélögunum sem og stuðningsmönnunum Manchester United hvatningarorð á samfélagsmiðlum sínum í gær, degi fyrir mikilvægan leik á móti ítalska liðinu Atlanta í Meistaradeildinni.

United liðið tapaði 4-2 á móti Leicester City í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og Ronaldo sjálfur átti ekki góðan leik. Honum hefur ekki tekist að fylgja eftir góðri byrjun þar sem hann var kosinn besti leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni.

Pressan er nú mikil á Ronaldo og öllu United liðinu því auk þess að vera að missa af lestinni í titilbaráttunni með sama áframhaldi þá gæti liðið flækt málin talsvert í Meistaradeildinni með slæmum úrslitum á móti Atalanta.

Ronaldo sendi frá sér þessa kveðju hér fyrir neðan en hann er með 357 milljónir fylgjendur á Instagram.

„Okkar tími er að koma! Við þurfum að sýna hverjir við erum og úr hverju við erum gerðir. Meistaradeildin er fullkomin keppni til að sanna okkur fyrir heiminum. Engar afsakanir. Keyrum á þetta,“ skrifaði Cristiano Ronaldo í kveðju sinni.

Yfir sex milljónir höfðu líkað við færslu hans í morgun.

Ronaldo skoraði þrjú mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum í Meistaradeildinni en hefur ekki skorað í síðustu þremur leikjum og United fékk bara eitt stig af níu mögulegum í þeim.

Hann hefur aftur á móti skorað í báðum Meistaradeildarleikjum liðsins þar á meðal sigurmarkið á móti Villarreal í uppbótartíma í síðasta leik.

Lionel Messi skoraði tvö mörk í endurkomusigri í Meistaradeildinni í gærkvöldi og það ætti að boða gott fyrir United liðið enda Ronaldo vanur að svara því inn á vellinum þegar Messi stelur fyrirsögnunum.

Leikur Manchester United og Atalanta verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 í kvöld og hefst útsendingin klukkan 18.50. Á undan verður upphitun fyrir Meistaradeildarkvöldið frá klukkan 18.15 og eftir leikinn verða Meistaradeildarmörkin á dagskrá á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×