Viðskipti innlent

Marel hagnaðist um 3,5 milljarða

Samúel Karl Ólason skrifar
Í ársfjórðungsuppgjöri Marels segir að sterkar mótteknar pantanir hafi leitt til stöndugrar og vel samsettrar pantanabókar.
Í ársfjórðungsuppgjöri Marels segir að sterkar mótteknar pantanir hafi leitt til stöndugrar og vel samsettrar pantanabókar. Vísir/Hanna

Marel hagnaðist um 23,2 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi. Það samsvarar tæplega þremur og hálfum milljarði króna. Á sama fjórðungi í fyrra var hagnaður félagsins 29,4 milljónir evra. Tekjur Marel voru 331,9 milljónir evra, samanborið við 287,2 á sama tíma í fyrra.

Í ársfjórðungsuppgjöri Marels segir að sterkar mótteknar pantanir hafi leitt til stöndugrar og vel samsettrar pantanabókar. Hún hafi staðið í 527,8 milljónum evra í lok ársfjórðungsins en í fyrra var hún í 434,3 milljónum.

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta var 19,7 milljónir evra, samanborið við 54,1 milljónir í fyrra. Skuldahlutfall var 0,9 í lok september.

„Heimsfaraldurinn hefur haft varanleg áhrif á virðiskeðju matvæla þar sem sjálfvirknivæðing, róbótatækni og rafrænar lausnir leiða framþróun sjálfbærrar matvælavinnslu. Skortur á vinnuafli, launaskrið og krafa um fjarlægðarmörk á vinnustöðum ýta undir auknar fjárfestingar. Með stöðugri nýsköpun hefur Marel undanfarið kynnt fjölda nýrra lausna sem styðja vel við aukna samkeppnishæfni viðskiptavina okkar. Í núverandi markaðsumhverfi skiptir lykilmáli að búa yfir snerpu og sveigjanleika til að svara ákalli neytenda um öruggar gæðavörur sem eru framleiddar á sjálfbæran hátt og henta fyrir mismunandi dreifileiðir í gegnum netverslun, veitingarekstur og hefðbundna stórmarkaði.

Á þremur síðustu ársfjórðungum hafa pantanir náð nýjum hæðum. Pantanir á þriðja ársfjórðungi námu 361 milljónum evra og samanlagðar pantanir fyrir fyrstu níu mánuði ársins jukust um 20% á milli ára. Sérstaklega áttu alifuglaiðnaður og laxaiðnaður góðu gengi að fagna í fjórðungnum þar sem viðskiptavinir eru að tryggja sér nýjar framleiðslulínur með framsæknum róbótum, skurðarlausnum og skynjaratækni auk margvíslegra hugbúnaðarlausna. Við höfum væntingar um góða áframhaldandi þróun í pöntunum, þar sem söluverk í vinnslu eru enn að vaxa þvert á iðnaði og landsvæði og við horfum því bjartsýn fram á veginn.

Við höfum siglt nokkuð stöðugt í gegnum heimsfaraldurinn en enn gætir áhrifa af áskorunum tengdum aðfangakeðju, auknum flutningskostnaði og verðbólgu í hrávörum. Til að mæta þessum áskorunum höfum við lagt áherslu á aukna vöruþróun, aukið markaðs- og sölustarf á lykilmörkum og lagt allt kapp á að tryggja afhendingu á vörum okkar og þjónustu á réttum tíma til viðskiptavina. Tekjur í fjórðungnum voru 332 milljónir evra með 11% rekstrarframlegð, sem er töluvert undir sögulegri afkomu og markmiðum okkar. Til að mæta auknum kostnaði hækkuðum við verð á vöru og þjónustu um 4-6% í fjórðungnum sem mun smám saman skila sér í auknum tekjum. Við höfum nýtt sterkan efnahag félagsins til að bæta enn í vöru- og íhlutabirgðir til að mæta áskorunum í aðfangakeðju og tryggja að matvælakeðjan haldist gangandi. Sjóðstreymi er firnasterkt það sem af er ári þrátt fyrir verulega aukningu á birgðum.

Í ljósi sterkrar pantanastöðu og hagstæðrar samsetningar eftir iðnuðum og vöruflokkum gerum við ráð fyrir hærri tekjum og rekstarframlegð á komandi fjórðungum. Við stöndum við markmið okkar um 16% EBIT fyrir árslok 2023.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×