Körfubolti

Sóknar­leikurinn alls­ráðandi er Kefla­vík lagði Grinda­vík | Breiða­blik sótti sigur í Borgar­nes

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anna Ingunn var frábær í kvöld.
Anna Ingunn var frábær í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Keflavík lagði Grindavík með 20 stiga mun er liðin mættust í Subway-deild kvenna í kvöld, lokatölur 105-85. Þá vann Breiðablik 30 stiga sigur á Skallagrími í Borgarnesi.

Segja má að bæði lið hafi verið mætt til að sækja sigurinn í Keflavík í kvöld en sóknarleikur beggja liða var hreint út sagt frábær. Þegar sóknarleikur gengur jafn vel fyrir sig og raun bar vitni er það venjulega vegna þess að varnarleikurinn er lítill sem enginn.

Úr varð samt hörkuleikur þar sem bæði lið skoruðu og skoruðu, því miður fyrir Grindavík var Keflavík töluvert betra og vann leikinn á endanum nokkuð sannfærandi þrátt fyrir að fyrri hálfleikur hafi verið nokkuð jafn. Lokatölur í Keflavík 105-85 og liðið nú með sex stig líkt og nágrannar sínir í Njarðvík sem töpuðu gegn Íslandsmeisturum Vals fyrr í kvöld.

Anna Ingunn Svansdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur með 27 stig. Ólöf Rún Óladóttir kom þar á eftir með 16 stig. Daniela Wallen Morillo var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu en hún skoraði 15 stig, tók 12 fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Robbi Ryan var stórkostleg í liði Grindavíkur með 34 stig ásamt því að taka 12 fráköst og gefa sex stoðsendingar.

Í Borgarnesi var Breiðablik í heimsókn og unnu gestirnir 30 stiga sigur, lokatölur 49-79.

Skallagrímur hefur átt erfitt með að koma knettinum ofan í körfuna og það hélt áfram í kvöld. Eftir að skora 29 stig í fyrri hálfleik skoraði liðið aðeins sex stig í þriðja leikhluta og ljóst hvorum megin sigurinn myndi enda.

Blikar slökuðu á klónni í fjórða leikhluta en unnu samt einstaklega sannfærandi sigur, lokatölur 79-49 gestunum í vil.

Chelsey Moriah Shumpert var frábær í liði Breiðabliks með 28 stig, sjö stoðsendingar og sex fráköst. Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 12 stig, tók átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Chelsey Moriah Shumpert átti frábæran leik í kvöld.Vísir/Bára Dröfn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×