Barcelona mætir PSG í dag í stórleik í B-riðli Meistaradeildar Evrópu. Mem fór yfir stöðuna hjá Barcelona fyrir leikinn í viðtali við RAC 1 á Spáni þar sem hann viðurkenndi að hafa áður velt því fyrir sér að halda heim til Frakklands og ganga í raðir PSG. Í augnablikinu líði honum þó vel hjá Barcelona.
„Ég væri að ljúga ef ég segði að ekkert félag hefði haft samband við mig en ég er enn hér og er sáttur. En við verðum að sjá hvað mér býðst hérna. Það vita allir að félagið er í snúinni stöðu og við vitum ekki hvort það verður ákveðið á morgun að félagið vilji bara halda sig við fótbolta,“ sagði Mem.
Hann er með samning við Evrópumeistarana sem gildir til ársins 2024 en gæti farið að hugsa sér til hreyfings, þó lið Barcelona sé enn í fremstu röð þrátt fyrir brotthvarf Arons til Álaborgar í sumar.
„Barca hefur ekkert sagt mér um endurnýjun samnings,“ sagði Mem, óviss um sína stöðu. Hann bætti við að Xavi Pascual, sem hætti sem þjálfari Barcelona í vor, hefði lagt hart að sér að vera áfram hjá félaginu. Pascual var afar sigursæll með lið Barcelona en brotthvar Arons mun hafa haft áhrif á ákvörðun hans um að hætta.
Nú veit Mem ekki hvað Barcelona vill gera. „Þegar maður sér að félagið leyfði [Aroni] Pálmarssyni að fara þá fyllist maður óvissu og heldur að kannski vilji þeir ekki heldur hafa þig áfram,“ sagði Mem.