Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Birni í kjölfar frétta um að umrædd sátt hafi náðst á milli hans og Sorpu.
Birni var sagt upp störfum sem framkvæmdastjóra Sorpu bs í febrúar á síðasta ári. Á sínum tíma var uppsögnin sögð grundvallast skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, sem ráðist var í eftir 1,4 milljarða krónu framúrkeyrslu við áætluðan framkvæmdakostnað vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi.
Í skýrslunni var gert úr mikið úr hlut framkvæmdastjórans; hann t.a.m. sagður hafa trassað að upplýsa stjórn Sorpu um stöðu framkvæmdanna með eðlilegum hætti. Skýrslan var kynnt í janúar á síðasta ári. og var Björn sendur í leyfi meðan á úrvinnslu hennar stóð.

Björn mótmælti harðlega niðurstöðum skýrslunnar og höfðaði máli þar sem hann krafði félagið um 167 milljónir vegna uppsagnarinnar. Aðalmeðferð málsins átti að hefjast í október. Samkvæmt sáttinni mun Björn fá greidd sex mánuði í laun til viðbótar við sex mánaða laun sem hann hafði þegar fengið greidda samkvæmt samningi. Þá mun Sorpa einnig greiða lögfræðikostnað hans upp á 1,5 milljónir króna.
Segist hafa verið tilbúinn til að semja frá upphafi
„Ég hef undirritað sátt við Sorpu bs. vegna starfsloka minna hjá fyrirtækinu. Með henni er lokið óþarflega langri deilu, sem hefur óneitanlega tekið á mig og fjölskyldu mína,“ segir í yfirlýsingu Björns.
Þar segir Björn að hann hafi frá upphafi málsins verið reiðubúinn til þess að semja um starfslok frá upphafi málsins, þrátt fyrir að hann telji sig ekki hafa á neinn hátt brotið af sér í starfi.
„Tveimur dögum áður en aðalmeðferð málsins var fyrirhuguð fyrir héraðsdómi bauð fyrirtækið fram sátt í málinu. Í því felst að sjálfsögðu viðurkenning á því að stjórn Sorpu braut á mér og hafði rangt við og hef ég að vel íhuguðu máli ákveðið að ganga að sáttinni enda er mál að linni. Ég hef snúið mér að öðrum verkefnum og horfi fram á við,“ segir Björn.

Þá gagnrýnir, sem fyrr, skýrslu innri endurskoðunar, sem var sögð vera grundvöllur uppsagnar hans á sínum tíma.
„Lítið sem ekkert tillit var tekið til andmæla minna og réttur minn til aðgangs að þeim gögnum sem skýrslan átti að byggja á var skertur. Við bættist að allar ákvarðanir stjórnar voru teknar undir vakandi augum fjölmiðla, þ.á m. ákvörðun stjórnar um að afþakka starfskrafta mína og senda mig í launalaust leyfi, veiting áminningar sem ég gat aldrei brugðist við og að lokum formleg uppsögn. Þessi starfslok urðu með þeim hætti að ég sá mig knúinn til að höfða dómsmál gegn fyrirtækinu í þeim tilgangi að fá viðurkennt að ég var beittur rangindum og hafður fyrir rangri sök,“ segir Björn.
Óskar hann Sorpu og starfsfólki þess góðs gengis í framtíðinni.
„Mér var þvert um geð að höfða mál gegn þessu góða fyrirtæki, þar sem ég starfaði í 20 ár. Við almennt starfsfólk Sorpu hef ég eingöngu átt í góðum samskiptum allan þann tíma og sneri þessi málshöfðun á engan hátt gegn því. Fyrirtækinu og starfsfólki þess óska ég alls hins besta í framtíðinni.“