Erlent

Brian Laundrie sá sem fannst látinn í gær

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Síðast sást til Brians um miðjan september en hann hélt inn í Carlton náttúruverndarsvæðið einn síns liðs 14. september. Síðan hefur lögreglan leitað hans á svæðinu.
Síðast sást til Brians um miðjan september en hann hélt inn í Carlton náttúruverndarsvæðið einn síns liðs 14. september. Síðan hefur lögreglan leitað hans á svæðinu. Octavio Jones/Gett

Líkamsleifar sem fundust á náttúruverndarsvæðinu Myakkahatchee Creek í Flórída í gær eru sagðar tilheyra Brian Laundrie, sem Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hefur leitað í rúman mánuð í tengslum við morðið á kærustu hans, Gabrielle Petito. 

Foreldrar Laundrie fundu líkamsleifarnar í gærmorgun þegar þau voru á göngu um svæðið í leit að syni sínum. Svæðið hefur verið lokað almenningi undanfarinn mánuð en var opnað aftur fyrir almenna umferð í fyrradag. Foreldrarnir Chris og Roberta Laundrie tilkynntu FBI sama kvöld að þau hyggðust fara og leita á svæðinu og gengu þau þá fram á leifarnar og bakpoka í eigu Brians. CNN greinir frá þessu. 

Að sögn lögmanns fjölskyldunnar, Stevens Bertolino, hefur FBI tilkynnt foreldrunum að líkamsleifarnar séu Brian. Tekist hafi að bera kennsl á líkið með því að bera tennurnar saman við heilsufarsgögn hans. 

FBI greindi frá því í gær að svæðið, sem er fenjasvæði, hafi við leit lögregunnar á svæðinu verið hulið vatni. Líkamsleifarnar hafi því ekki fundist við upprunalega leit en nú hafi svæðið þornað upp og foreldrarnir því gengið fram á líkið. 

Brians var leitað í tengslum við morðið á kærustu hans, Gabrielle Petito, sem fannst látin í þjóðgarði í Wyoming 19. september síðastliðinn. Kærustuparið hafði verið á ferðalagi um Bandaríkin saman en hún horfið í lok ágúst. Eftir að lík Petito fannst staðfesti réttarmeinafræðingur að hún hafi verið myrt með kyrkingu. 

Brian sneri aftur heim til foreldra sinna í Flórída 1. september einn síns liðs og hafði neitað að ræða málið við lögreglu. Það var svo þann 14. september sem foreldrar hans tilkynntu lögreglunni að hann hafi haldið inn á Carlton náttúruverndasvæðið, sem hann gekk oft um, einn síns liðs. Síðan þá hefur lögreglan leitað hans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×