Enski boltinn

Segir að Man Utd sé vant því að koma til baka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcus Rashford var meðal markaskorara í dag.
Marcus Rashford var meðal markaskorara í dag. Mike Hewitt/Getty Images)

Marcus Rashford var meðal markaskorara Manchester United er liðið vann Tottenham Hotspur 3-0 í ensku úrvalsdeildinni í dag. Man United varð að vinna eftir afhroð gegn Liverpool um síðustu helgi.

„Þetta hefur verið mjög erfið vika, það er það fyrir öll lið þegar þau vinna ekki. Við svöruðum á þann eina hátt sem við kunnum. Eina sem starfslið félagsins sem og allir leikmenn þess vilja er að vinna leiki,“ sagði Rashford í viðtali eftir leik.

„Það fylgir því mikil pressa að spila fyrir Manchester United, maður verður að læra að njóta þess. Hluti af því að spila fyrir þetta félag er að koma til baka eftir erfið augnablik, þetta félag hefur alltaf komið til baka eftir áföll.“

„Við verðum allir að fara eftir því sem þjálfarinn segir okkur. Í dag hjálpaði það okkur að næla í þrjú stig. Við eigum meira inni. Svo lengi sem við höldum áfram að bæta okkur munum við ná í stig, við sjáum hvar við verðum undir lok tímabils,“ sagði Rashford að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×