Sem kunnugt er á Barcelona í miklum fjárhagskröggum og hefur þurft að skera niður mikið hjá sér. Aron yfirgaf Barcelona í sumar eftir fjögur ár í Katalóníu og gekk í raðir Álaborgar.
Aron segir erfitt að horfa upp á vandræðin sem Barcelona glímir við um þessar mundir.
„Það er það. Það er bæði leiðinlegt að lesa um þetta í blöðunum og svo heldur maður sambandi við strákana í liðinu,“ sagði Aron í samtali við Henry Birgi Gunnarsson fyrir landsliðsæfingu í Víkinni í gær.
Aron segir að ekki sjái enn fyrir endann á vandamálum Barcelona.
„Leikmennirnir fá allavega enn launin sín og það gengur allt í lagi. En ég held að vandamálin eigi bara eftir að koma meira. Ég hef sterkar taugar og það er hálf sorglegt að sjá hvernig er að fara fyrir þessu félagi í dag,“ sagði Aron.
Hafnfirðingurinn vann allt sem hægt var að vinna þegar hann lék með Barcelona, meðal annars Meistaradeild Evrópu í vor.