Fótbolti

Juventus og Bayern tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bayern München tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum í kvöld.
Bayern München tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum í kvöld. Alexander Hassenstein/Getty Images

Alls fóru fram átta leikir í Meistaradeild Evrópu í dag og í kvöld. Stórveldin Juventus og Bayern München eru örugg áfram í 16-liða úrslit eftir leiki kvöldsins.

Robert Lewandowski og Serge Gnabry komu Bayern í 2-0 er liðið tók á móti Benfica í kvöld, áður en Morato minnkaði muninn á 38. mínútu. Lewandowski fékk svo tækifæri til að auka forystuna á ný af vítapunktinum stuttu fyrir hálfleik, en honum brást bogalistin.

Leroy Sane skoraði þriðja mark Bayern á 49. mínútu áður en Lewandowski bætti upp fyrir vítaklúðrið rúmum tíu mínútum síðar.

Darwin Nunez minnkaði muninn í 4-2 á 74. mínútu, en margumræddur Robert Lewandowski tryggði heimamönnum 5-2 sigur er hann fullkomnaði þrennu sína rúmum fimm mínútum fyrir leikslok.

Paulo Dybala kom Juventus í 1-0 forystu gegn Zenit frá Pétursborg strax á 11. mínútu er liðin mættust í H-riðli. Leonardo Bonucci varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 26. mínútu og staðan var því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Dybala bætti sínu öðru marki við af vítapunktinum eftir tæplega klukkutíma leik áður en Federico Chiesa kom Juventus í 3-1 á 73. mínútu.

Alvaro Morata bætti fjórða marki Juventus við stuttu fyrir leikslok, en Sardar Azmoun klóraði í bakkann fyrir gestina í uppbótartíma. Lokatölur 4-2 og Juventus er því á leið í 16-liða úrslit.

Öll úrslit kvöldsins

E-riðill

Bayern München 5-2 Benfica

Dynamo Kiev 0-1 Barcelona

F-riðill

Atalanta 2-2 Manchester United

Villareal 2-0 Young Boys

G-riðill

Wolfsburg 2-1 Salzburg

Sevilla 1-2 Lille

H-riðill

Malmö 0-1 Chelsea

Juventus 4-2 Zenit




Fleiri fréttir

Sjá meira


×