Fótbolti

Stjóri Atalanta sagði Ronaldo að fara til helvítis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Gian Piero Gasperini göntuðust eftir leik Atalanta og Manchester United í Meistaradeild Evrópu.
Cristiano Ronaldo og Gian Piero Gasperini göntuðust eftir leik Atalanta og Manchester United í Meistaradeild Evrópu. epa/PAOLO MAGNI

Eftir leik Atalanta og Manchester United í Meistaradeild Evrópu í gær sagði Gian Piero Gasperini, knattspyrnustjóri ítalska liðsins, Cristiano Ronaldo, hetju Rauðu djöflana, að fara til helvítis, í léttum dúr þó.

Ronaldo sá til þess að United fór með eitt stig frá Ítalíu þegar hann jafnaði í 2-2 á annarri mínútu í uppbótartíma. Ronaldo skoraði einnig fyrra mark United undir lok fyrri hálfleiks. Hann jafnaði þá í 1-1.

Ronaldo hefur reynst United ómetanlegur í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Hann skoraði sigurmarkið gegn Villarreal, 2-1, í uppbótartíma og sigurmarkið í fyrri leiknum gegn Atalanta sem United vann, 3-2.

Það er því ekki að furða að Gasperini sé orðinn pirraður á Ronaldo því án markanna hans væri Atalanta í kjörstöðu í F-riðli. Gasperini sló þó á létta strengi með Ronaldo þegar þeir ræddust við í leikslok.

„Eftir leikinn sagði ég við hann: Þú veist hvað við segjum á Ítalíu, farðu til helvítis,“ sagði Gasperini sem sagði jöfnunarmark Ronaldos hafa verið laglegt.

„Hann er bara ótrúlegur. Ef það er einhver sem þú vilt að fái þetta færi, og það var erfitt, er það hann. Augun voru allan tímann á boltanum og tæknin sem hann sýndi þegar hann tók hann á lofti var ótrúleg.“

United er á toppi F-riðils Meistaradeildarinnar með sjö stig, líkt og Villarreal. Atalanta er í 3. sæti riðilsins með fimm stig.

Ronaldo hefur skorað í öllum fjórum leikjum United í Meistaradeildinni, alls fimm mörk.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×