Innlent

Þjóðveginum lokað fyrir norðan vegna alvarlegs umferðarslyss

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Lögregla lokar þjóðveginum 1.
Lögregla lokar þjóðveginum 1. Vísir/Berghildur

Tilkynnt var um tvö umferðarslys á sama tíma í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra skömmu fyrir klukkan eitt í dag. Þrír voru fluttir á sjúkrahús vegna alvarlegs slyss á Moldhaugnahálsi. 

Að því er kemur fram í færslu lögreglunnar á Facebook varð annars vegar umferðarslys á Moldhaugnahálsi og hins vegar bílvelta við Staðarbakka.  

Slysið á Moldhaugnahálsi var alvarlegt en  þar höfðu tveir bílar lent saman. Ökumenn beggja bílanna og farþegi í öðrum bílnum voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri. 

Á vef Vegagerðarinnar má sjá að hált á þjóðveginum fyrir norðan.Vegagerðin

Á Staðarbakka hafði gámaflutningabíll oltið en ökumaður og farþegi voru í bílnum þegar hann valt. Meiðsl þeirra virðast þó minniháttar að sögn lögreglu. 

Þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um slysin tvö á sama tíma eru þau ótengd. Hringvegurinn um Moldhaugnahálsinn er nú lokaður en opið er fyrir hjáleið um Skjaldavík.

Frá slysstað í dag.Vísir/ArnarHalldórs

Farmur bílsins fór af pallinum og út í ræktina.

Í framhaldi af því að bílar fóru að aka hjáleiðina um Skjaldavík valt stór vöruflutningabíll. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu gaf vegkantur sig og vörubíllinn lagðist á hliðina. Ekki urðu slys á fólki.

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×