Samkvæmt frétt Bloomberg (áskriftarvefur) er nú áætlað að Sony framleiði um fimmtán milljónir tölva á uppgjörsárinu sem endar í mars 2022, en áður var ætlunin að gera sextán milljónir.
Sjá einnig: Stórt stökk fram á við í grafík og hraða
Fjárfestum Sony var samkvæmt Bloomberg nýlega tilkynnt að skortur á svokölluðum hálfleiðurum hefði versnað og fyrirtækið hefði einnig lent í vandræðum með vöruflutninga. Sony seldi færri leikjatölvur á síðasta ársfjórðungi en til stóð.
Skorturinn á hálfleiðurum hefur komið niður á fjölmörgum fyrirtækjum í fjölmörgum geirum iðnaðar. Bílaframleiðendur og tæknifyrirtæki hafa orðið hvað verst fyrir barðinu á skortinum. Meðal annarra hefur Apple þurft að draga úr framleiðslumarkmiðum fyrirtækisins.
Sjá einnig: Skortur sagður koma niður á framleiðslu iPhone 13
Gífurleg eftirspurn hefur verið eftir PS5 leikjatölvum. Sala þeirra hófst fyrir rúmu ári síðan en enn fá færri tölvur en vilja. Setið er um tölvunar þegar þær berast í verslanir og biðlistar enn langir.
Forsvarsmenn Sony hafa varað við því að fyrirtækið muni ekki anna eftirspurn út árið 2022.