Körfubolti

Körfu­bolta­kvöld um Þóri: „Fáir ís­­lenskir leik­­menn með sama vopna­búr“ | „Eins og hálf­­­gerð ofur­­hetja“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þórir Guðmundur var magnaður í sigri KR á Stjörnunni.
Þórir Guðmundur var magnaður í sigri KR á Stjörnunni. Vísir/Hulda Margrét

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, eða Tóti Túrbó eins og hann er betur þekktur sem vestur í bæ, fór mikinn er KR lagði Stjörnuna í framlengdum leik í Subway-deild karla í körfubolta í gærkvöld.

KR vann átta stiga sigur, 98-90, í framlengdum leik í Vesturbænum í gærkvöld. Þórir Guðmundur skoraði 28 stig, tók 15 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Hann var framlagshæstur í liði KR með 35 í framlag.

Strákarnir í Körfuboltakvöldi halda vart vatni yfir frammistöðum drengsins þessa dagana en ásamt Kjartani Atla Kjartanssyni þáttastjórnanda voru þeir Sævar Sævarsson og Jón Halldór Eðvaldsson, Jonni.

„Hann er bara kominn með allan pakkann og honum vex eiginlega með hverjum leiknum. Það sem mér finnst hann búinn að vera bæta frá því í fyrra er sjálfstraust í skotum, hann er set up skotmaður og tilbúinn að taka skot – akkúrat þarna kemur dæmi – með mann svona ekki alveg í andlitinu á sér en tiltölulega mikið í sér,“ sagði Sævar og bætti svo við:

„Það eru ósköp fáir leikmenn á Íslandi í dag, sérstaklega íslenskir, sem hafa þetta vopnabúr sem Þórir hefur.“

„Svo er hann að taka fráköst, ef við skoðum leikina hans í vetur. Níu fráköst í fyrsta leik, svo 13, 9, 8, 16 og 15. Hann er með 11,7 fráköst að meðaltali í leik úr vængstöðu, það er algjörlega magnað,“ sagði Kjartan Atli um fjölhæfni þessa ótrúlega leikmanns.

Klippa: Fóru fögrum orðum yfir Þóri Guðmund

„Mér finnst þessi strákur bara vera að stimpla sig inn sem einn af betri íslensku leikmönnunum í þessari deild. Hann fer erlendis í skóla, kemur heim og er smá stund að finna sína stöðu í þessum bolta sem við erum að spila hérna.“

„Síðan er hann búinn að … þetta er eins og hálfgerð ofurhetja. Hann fær alltaf meiri og meiri kraft, hann er að gera alltaf meira og meira. Hann tók þetta lið bakið í dag,“ sagði Jonni, að endingu um frammistöðu Þóris Guðmundar gegn Stjörnunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×