Körfubolti

Reif niður frá­kast númer tvö þúsund í sigri Tinda­stóls á Vestra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigurður Gunnar í leik með Tindastól gegn sínum fyrrum félögum í ÍR.
Sigurður Gunnar í leik með Tindastól gegn sínum fyrrum félögum í ÍR. vísir/vilhelm

Miðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson tók átta fráköst í sigri Tindastóls á Vestra í Subway-deild karla í körfubolta á dögunum. Þar með hefur hann tekið 2004 fráköst í efstu deild hér á landi.

„Hann hefur heldur betur alltaf hjálpað liðunum sínum að ná fínum árangri þó hann hafi fallið með Hetti í fyrra,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi Körfuboltakvöld ræddi afrek Sigurðar Gunnars.

Kjartani Atal til halds og traust að þessu sinni voru þeir Sævar Sævarsson og Jón Halldór Eðvaldsson eða Jonni eins og hann er nær alltaf kallaður.

„Mér finnst hann bara vera að bæta í. Ég er svo ógeðslega ánægður með þennan strák Sjáið varnarleikinn hjá honum ekki bara í þessum leik heldur í vetur. Hann er búinn að vera frábær, hann er í gólfinu og út um allt. Ef ég væri jafn stór og jafn þungur og hann og ég myndi skutla mér í gólfið þyrfti einhver að hjálpa mér upp og ég mögulega myndi ekki spila seinni hálfleikinn,“ sagði Jonni.

„Það gæti hafa orðið hugarfarsbreyting hjá Sigga sjálfum. Hvernig hann ber sig í viðtölum og fleira, hann er orðinn auðmjúkur. Það var orðið smá vandræðalegt hversu kokhraustur hann var. Hann var að spila eitthvað annað hlutverk, hann kemur úr Keflavík og fer í Grindavík. Það eru minni stælar og látalæti í honum.“

Klippa: Körfuboltakvöld: Umræða um Sigga Þorsteins

„Það er eitt sem hann hefur alltaf getað og það er að taka fráköst. Hann er kominn á þennan lista. Hann er sjö fráköstum frá Alexander Ermolinskij og þá er hann kominn í 10. sæti yfir frákastahæstu leikmenn sögunnar,“ sagði Kjartan Atli að endingu.

Þó Sigurður Gunnar sé kominn með 2004 fráköst í efstu deild á hann töluvert í land með að ná efstu mönnum. Á toppnum trónir Hlynur Elías Bæringsson með 3670 fráköst. Þar á eftir kemur Guðmundur Bragason með 3260 og svo Friðrik Stefánsson með 3212.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×