Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, segir í samtali við Vísi að sá sem lést í slysinu við Látravatn hafi verið Íslendingur en að annars sé ótímabært að veita frekari upplýsingar. Unnið sé að rannsókn þar sem verið sé að reyna að tímasetja slysið og sömuleiðis kanna hvernig aðstæður hafi verið á veginum þegar slysið varð.
Lögregla á Vestfjörðum greindi frá því síðdegis í gær að fyrr um daginn hafi vegfarandi komið að ökumanni látnum í bíl sínum. Virtist sem bíllinn hafi runnið út af veginum og oltið að minnsta kosti eina veltu þar til hann staðnæmdist. Hinn látni var einn í bílnum.
Beita þurfti klippum og öðrum viðeigandi búnaði til að losa ökumanninn úr bílflakinu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.
Þrjú banaslys hafa verið í umferðinni hér á landi á síðustu dögum. Þannig lést ökumaður rafhlaupahjóls á stíg við á mótum Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar í síðustu viku og þá lést karlmaður á fertugsaldri í umferðarslysi í Kjós fyrr í mánuðinum.