Innherji

Ísland geti orðið fjármálamiðstöð norðurslóða

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Arion banki
Arion banki VÍSIR/VILHELM

Arion banki vinnur markvisst að því að auka umsvif sín á norðurslóðum og telja stjórnendur bankans að íslenska fjármálakerfið geti gegnt lykilhlutverki á svæðinu. „Ísland er í einstakri stöðu til að verða fjármálamiðstöð norðurslóða,“ sagði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, á markaðsdegi bankans sem var haldinn í morgun.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóri Arion banka, greindi nánar frá fyrirætlunum bankans. Hann vísaði til nýlegrar skýrslu matsfyrirtækisins S&P þar sem fram kom að Arion banka skorti landfræðilega áhættudreifingu.

„Það er rétt og við ætlum að auka umsvif okkar erlendis þegar við metum að tímasetningin sé rétt, og á okkar eigin forsendum,“ sagði Ásgeir. 

Skuldabréfaútgáfur Arion banka í erlendri mynt hafa myndað svigrúm til að auka útlán bankans utan landsteina.

„Við munum starfa þar sem við teljum að sérkunnátta okkar geti skapað virði, þar sem skortur er á bankaþjónustu og þar sem markaðir eru svipaðir að gerð og heimamarkaðurinn. Við teljum að það séu norðurslóðir," sagði Ásgeir. 

Stóran hluta af erlendum útlánum Arion banka, um 75 prósent, má rekja til ríkja sem eiga lönd innan norðurslóða. 

„Horft til meðallangs tíma teljum við okkur geta vaxið á norðurslóðum og við höfum nú þegar komið auga á tækifæri.“

Ásgeir sagði að Arion banki hefði mestan áhuga á Færeyjum eins og sakir standa en bankinn væri einnig að kortleggja tækifæri í Alaska, Kanada og á Grænlandi. Hann býst ekki við að bankinn opni útibú í þessum löndum, að minnsta kosti ekki í bráð.

Stjórnendur Arion banka fóru einnig yfir árangurinn sem Arion banki hefur náð frá síðasta markaðsdegi bankans fyrir tveimur árum þegar þeir kynntu nýja stefnu til að umbylta fyrirtækjalánabókinni.

„Bankinn þurfti að taka á rangri verðlagningu í fyrirtækjalánabók sinni. Enn fremur þurfti bankinn að innleiða nýjan hugsunarhátt hvað varðar fyrirtækjalán. Bankinn þurfti að styrkja tengslin við lykilviðskiptavini en slíta á þau tengsl sem voru hvorki ábatasöm fyrir bankann né viðskiptavininn,“ sagði Ásgeir.

Í umhverfi sem var litað af heimsfaraldri og lægstu vöxtum sem sést hafa á Íslandi fór hreinn vaxtamunur bankans vaxandi og arðsemi fyrirtækjalána batnaði umtalsvert.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×