Kharkiv komst yfir undir lok fyrri hálfleiks, bætti svo öðru marki við í seinni hálfleik og vann 0-2 sigur. Breiðablik er því áfram með eitt stig í B-riðli.
„Þetta er mjög svekkjandi niðurstaða. Það sem við lögðum upp með gekk þokkalega á köflum. Við héldum boltanum miklu betur og stjórnuðum leiknum á köflum,“ sagði Ásmundur á blaðamannafundi eftir leik.
„Við sköpuðum hálffæri, möguleika en herslumuninn vantaði. Í fyrri hálfleik voru fínir möguleikar á að skora á þær og ég held að ef við hefðum náð að skora á undan hefðum við séð aðra þróun á leiknum.“
„Í útileiknum vorum við varfærnari, vorum aftar á vellinum og vildum reyna að sækja hratt. Núna reyndum við að komast framar, pressa hærra, ná betri tökum á boltanum og búa þannig til fleiri færi,“ sagði Ásmundur.
„Hvað þetta varðar eru leikirnir eins og svart og hvítt. Það gekk mjög illa að halda boltanum í útileiknum og náðum varla 1-2 sendingum á milli. Það gekk betur núna og við fengum fleiri færi og möguleika. En niðurstaðan er mjög svekkjandi.“