Fótbolti

Haller sá til þess að Ajax er enn með fullt hús stiga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sebastian Haller skoraði bæði mörk Ajax í kvöld.
Sebastian Haller skoraði bæði mörk Ajax í kvöld. ANP Sport via Getty Images

Sebastian Haller skoraði bæði mörk Ajax er liðið vann 1-2 útisigur gegn Besiktas í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Ajax er því enn með fullt hús stiga eftir fimm leiki, en Besiktas er hins vegar enn án stiga.

Rachid Ghezzal kom heimamönnum í besiktas yfir af vítapunktinum á 22. mínútu eftir að Noussair Mazraoui handlék knöttinn innan vítateigs.

Staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks, en Sebastian Haller jafnaði metin á 54. mínútu eftir stoðsendingu frá Nicolas Tagliafico.

Haller var svo aftur á ferðinni stundarfjórðungi síðar þegar hann tryggði gestunum 1-2 sigur eftir stoðsendingu frá Lisandro Martinez.

Sóknarmaðurinn hefur farið mikinn á sínu fyrsta tímabili í Meistaradeildinni og hefur skorað níu mörk í fyrstu fimm leikjum sínum sem gerir hann að markahæsta leikmanni tímabilsins ásamt Robert Lewandowski.

Eins og áður segir er Ajax á toppi C-riðils með 15 stig af 15 mögulegum og hefur tryggt sér sigur í riðlinum. Besiktas er hins vegar án stiga á botninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×