Ester Júlía Olgeirsdóttir lenti í því síðastliðinn sunnudag að hundurinn hennar, Lúkas, slasaðist alvarlega. Þegar hún reyndi að hringja í neyðarnúmerdýralækna svaraði aftur á móti enginn, þrátt fyrir að dýralæknir eigi að vera á vakt.
Hún lýsir því að bæði hún og sambýlismaður hennar hafi ítrekað reynt að ná sambandi en þegar það gekk ekki gengu þau niður listann yfir dýralækna á höfuðborgarsvæðinu. Eftir þó nokkur símtöl, þar sem flestir bentu aftur á neyðarnúmerið, gat einn dýralæknir tekið á móti hundinum.
„Við fórum með hann til hennar en það var ekkert annað í stöðunni en að svæfa dýrið. Þetta var mjög erfiður dagur,“ segir Ester en hún furðar sig á því að dýralæknir á neyðarvakt svari ekki símanum. „Það getur vel verið að þetta eigi sér einhverja góða skýringu en þetta er ekki boðlegt að mínu mati.“

Hún heyrði af sambærilegu máli þennan sama dag þar sem kona með kött reyndi ítrekað að ná sambandi við dýralækni á vakt um nóttina. „Hún reyndi margoft og á endanum hringdi hún í dýralækni úti á landi, en auðvitað gengur það ekkert upp,“ segir Ester.
Sjálf tilkynnti Ester málið til Matvælastofnunar en segist ekki hafa nein svör enn sem komið er.
Héraðsdýralæknir MAST í Suðvesturumdæmi staðfesti í samtali við fréttastofu að málið væri til skoðunar en það væri afar sjaldgæft að svona komi upp. Mikið álag væri á dýralæknum á þessum neyðarvöktum sem gæti skýrt af hverju dýralæknir svaraði ekki.
„Ég vil að þetta verði bætt, því það er skelfilegt að vera með slasað dýr í höndunum og geta ekkert gert. Það er bara alveg hræðilegt,“ segir Ester.
„Þannig að ég vil að þeir finni einhverja lausn, alla vega varaleið sem tekur við ef að dýralæknir er upptekinn.“