Innlent

Vatns­hæð í Gígju­kvísl hækkað um einn metra

Atli Ísleifsson skrifar
Íshellan í Grímsvötnum í Vatnajökli hefur nú lækkað um tíu metra.
Íshellan í Grímsvötnum í Vatnajökli hefur nú lækkað um tíu metra. Vísir/RAX

Vatnhæðin í Gígjukvísl hefur hækkað um einn metra frá í síðustu viku og þá hefur íshellan í Grímsvötnum lækkað um heila tíu metra. Sérfræðingar Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskólans gera nú ráð yfir að Grímavatnahlaup nái hámarki um helgina.

Þetta segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við Vísi.

„Þetta er mjög hægt ferli sem við erum að horfa á núna. Rennslið er lítið og eykst svo smátt og smátt. Vatnshæðin í Gígjukvísl hefur verið að hækka smám saman þar sem þetta vatn sem hefur verið að leita út úr Grímsvötnum er að leita þangað niður eftir.

Frá því að vatnhæðin var lægst, það er áður en þessi atburðarás hefst þarna í síðustu viku, þá hefur vatnhæðin hækkað um einn metra,“ segir Einar Bessi.

Hann segir að gert sé ráð fyrir að rennsli muni halda áfram að aukast smám saman og svo ná hámarki um helgina.

Hefur vaxið hægar en 2010

Jöklahópur Jarðvísindastofnunar Háskólans sagði í færslu á Facebook í gærkvöldi að rennslið úr Grímsvötnum nú hafi hingað til vaxið hægar en það gerði 2010. 

Af þeim sökum sé mjög ólíklegt að spá um hámarksrennsli upp á fimm þúsund rúmmetra á sekúndu, líkt og áður hafði verið spáð, muni ganga eftir. 

Gerir spálíkan ráð fyrir að rennslistoppi úr Grímsvötnum verði nú líklega náð á sunnudaginn eða í fyrsta lagi á seinni part laugardags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×