Þær Kristún og Guðrún eru báðar nýkjörnar á Alþingi og eru báðar þekktar fyrir skeleggan málflutning og verða að teljast miklar vonarstjörnur flokka sinna. Guðrún er eins konar ráðherra á bið því stefnt er að því að hún taki við innanríkisráðuneytinu af Jóni Gunnarssyni innan eins og hálfs árs. Margir telja síðan að Kristrún sé framtíðarleiðtogi Samfylkingarinnar.
Báðar tóku þær þátt í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi og munu örugglega láta heyra í sér í umræðum um fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar sem Bjarni benediktsson mælti fyrir á Alþingi í morgun. Fyrsta umræða um frumvarpið stendur að minnsta kosti yfir í dag og á morgun.
Hver er framtíðarsýn þessarra tveggja nýju þingmanna sem svo miklar vonir eru bundnar við? Verða þær fyrst og fremst trúar flokkum sínum eða munu þær voga sér að taka af skarið og leggja eitthvað nýtt til málanna á komandi kjörtímabili?
Í Pallborðinu sem hefst í beinni útsendingu hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi klukkan 14 reynum við að draga fram sýn þeirra á stöðu stjórnmálanna í dag og hvert þær vilja sjá íslenskt samfélag stefna á næstu árum.