Innherji

Streymisveita ríkisins verður „heljarinnar maskína“, segir stjórnandi hjá Nova

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Málaflokkurinn er hjá Lilju Alfreðsdóttur, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Málaflokkurinn er hjá Lilju Alfreðsdóttur, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra. VÍSIR/VILHELM

Ríkið mun fjárfesta að óþörfu og skapa varanlegan kostnað ef áform þess um þróun á streymisveitu verða að veruleika. Innlendar streymisveitur, sem geta tekið að sér að dreifa íslenskum kvikmyndum og þáttaröðum, eru nú þegar til staðar og ríkið þyrfti að eyða miklu púðri í að halda streymisveitunni í takt við tímann. Þetta segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova.

„Þetta verður heljarinnar maskína,“ segir Magnús í samtali við Innherja. Ríkisstjórnin hyggst veita fé til þróunar nýrrar innlendrar streymisveitu á næsta ári sem er ætlað að auðvelda og einfalda aðgengi að íslenskum kvikmyndaarfi.

Fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 að fjárveiting vegna framkvæmdar kvikmyndastefnu verði aukin um 510 milljónir á næsta ári, meðal annars vegna þróunar á streymisveitu.

Undirbúningsvinna er hafin á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasafns Íslands en gert er ráð fyrir að streymisveitan veiti aðgang að íslenskum bíómyndum, þáttaröðum, heimildarmyndum, stuttmyndum og öðru efni. Miðað er við að notendur greiði fyrir sýningu einstakra verka.

Magnús segir sjálfsagt mál að ríkið verndi menningararf með því að safna réttindum – að hans sögn er stórt vandamál í kvikmyndaframleiðslu að réttindi eru oft óljós og dreifð – og koma efni yfir á stafrænt form.

En allt sem snýr að því að koma efninu í dreifingu getur Nova, svo dæmi sé tekið, boðið ríkinu endurgjaldslaust í gegnum sína streymisveitu.

Magnús Árnason, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova.

„Við rukkum einungis þóknanir til að standa undir beinum streymiskostnaði, við lítum á þetta sem þjónustu við okkar viðskiptavini umfram annað. Kvikmyndamiðstöð gæti komið með efnið til okkar á morgun og byrjað að fá tekjur af því samdægurs. Það myndi ekki krefjast neinnar fjárfestingar af hálfu hins opinbera,“ segir Magnús.

„Við erum ekki að reyna koma höndum á efnið sjálft eða réttindin,“ bætir Magnús við, „heldur viljum við einfaldlega miðla efninu beint frá rétthafa til kaupanda"

Vandinn sem ríkið og Kvikmyndamiðstöð standa frammi fyrir er að neytendur gera miklar kröfur þegar kemur að notkun á stafrænum lausnum, ekki síst streymisveitum.

„Þeir eru vanir að nota lausnir sem streymisveitur hafa varið tugum milljarða króna í að þróa. Öppin þurfa að styðja við ógrynni endapunkta, eins og Apple TV, snjallsjónvörp og svo framvegis, og ótal skjástærðir,“ segir Magnús.

„Þetta verður lifandi þróunarverkefni út í hið óendanlega ef Kvikmyndamiðstöð ætlar að halda streymisveitunni við.“

Og verkefni af þessari stærðargráðu krefst starfsmanna með tækniþekkingu sem mikil spurn er eftir í einkageiranum.

„Þetta snýst líka um samkeppni um fólk. Nú þegar er gríðarleg eftirspurn eftir hugbúnaðar- og tæknifólki og þá ætlar ríkið að stíga inn á þann markað af fullum þunga.“


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×