Umfjöllun: Breiða­blik - Þór Ak. 122-94 | Stórsigur í botnslagnum

Sverrir Mar Smárason skrifar
Breiðablik vann öruggan sigur í kvöld.
Breiðablik vann öruggan sigur í kvöld. Vísir/Bára

Breiðablik vann öruggan 28 stiga sigur, 122-94, er liðið tók á móti Þórsurum frá Akureyri í uppgjöri neðstu liða Subway-deildarinnar í kvöld. Breiðablik vann, með sigrinum í kvöld, sinn annan sigur í deildinni og eru því með fjögur stig en Þórsarar sitja eftir á botni deildarinnar og eru enn án stiga.

Akureyringar fóru vel af stað í fyrsta leihluta og komust snemma yfir. Eric Etienne og Ragnar Ágústsson voru heitir til að byrja með og Þórsarar komust mest í 7 stiga forskot. Þegar lítið var eftir af leikhlutanum duttu Blikar hins vegar í gang og skoruðu 8 stig gegn 2 frá Þór. Staðan eftir fyrsta leikhluta jöfn, 23-23.

Þegar 2. leikhluti fór af stað sást strax í hvað stemmdi. Breiðablik skoraði úr hverri sókninni á fætur annarri og eftir 8 stig frá Árna Elmari í röð voru þeir komnir fjórum stigum yfir. Þórsarar náðu að hitta úr sínum skotum í upphafi leikhlutans en þegar leið á var bara eitt lið á vellinum. Eftir að hafa dreift stigunum bróðurlega á milli sín fóru Blikar inn í hálfleik með 19 stiga forskot og 39 stig í 2. leikhluta.

Í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum nema nú fóru Blikar að hitta úr hverju þristaskotinu á eftir öðru. Blikar skoruðu 20 stig á fyrstu þremur og hálfri mínútu síðari hálfleiks gegn 11 stigum frá Þór. Liðin skiptust á að setja niður þrista en sem fyrr voru Blikar með yfirhöndina og vörn Þórs réði ekkert við þá. Staðan eftir 3. leikhluta 93-69 og heimamenn með 24 stiga forystu.

Tveir nýjir menn spiluðu með Þór í dag. Jéremy Landenbergue lék þó einnig í síðasta leik liðsins fyrir landsleikjapásu en Reginald Keely var að leika sinn fyrsta leik með liðinu. Það sást mjög greinilega að liðið var alls ekki í takti og þessir leikmenn fundu sig ekki fyrr en í 4. leikhluta en þá var það ekki nóg og dugði alls ekki til. Unglingalið Blika kláraði leikinn virkilega vel og Breiðablik vann að lokum 28 stiga sigur, 122-94.

Í liði Blika var Hilmar Pétursson stigahæstur með 24 stig. Á eftir honum komu svo bróðir hans, Sigurður, og Everage Richardson með 20. Samuel Prescott tók flest fráköst eða 11 talsins.

Í Þórs-liðinu endaði Reginald Keely með flest stig eða 20. Hann var þó aðeins með 38% skotnýtingu. Hann tók einnig flest fráköst eða 11 eins og Sam Prescott fyrir Blika.

Af hverju vann Breiðablik?

Þeir voru í miklu betri takti bæði sóknarlega sem og varnarlega. Þórs-liðið réði ekkert við hraðar sóknir Blika og á tímabili skoruðu þeir úr um 10 sóknum í röð. Blika liðið er með bestu sóknarliðum deildarinnar og gefur öllum liðum leik en ef allir andstæðingar mæta eins og Þór mættu í dag þá væri þetta auðveld deild fyrir þá.

Hverjir voru bestir?

Hilmar Pétursson og Everage Richardson voru bestir í dag. Hilmar með 32 framlagsstig, 24 stig skoruð, 4 fráköst og 7 stoðsendingar á meðan Everage var með 29 framlagsstig, 20 stig skoruð, 9 fráköst og 7 stoðsendingar.

Hvað mætti betur fara?

Þórsarar þurfa að slípa sig saman og það hratt ef ekki á að fara illa. Nýju erlendu leikmennirnir eru ekki farnir að líta nógu vel út og þeir þurfa að koma þeim í gang strax eða losa sig við þá. Reginald Keely vildi til að byrja með grípa boltann fyrir utan 3ja stiga línuna og reyndi nokkur skot en hitti illa. Í seinni hálfleik færði hann sig meira undir körfuna og þar nýtist hann mun betur.

Hvað gerist næst?

Líkt og fyrr segir fara Blikar í 4 stig og Þór er eftir með 0 stig eftir leikinn í kvöld.

Breiðablik mætir Vestra á Ísafirði í næstu viku. Leikurinn verður spilaður n.k. föstudag kl. 18:15.

Þór fer í heimsókn á Hlíðarenda á fimmtudaginn næsta og mætir Val kl. 19:00.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira