Innherji

Viðskiptaverðlaun Innherja 2021: Sidekick Health, Lucinity og Arion tilnefnd sem Tækniundur ársins

Ritstjórn Innherja skrifar
taekniundur

Fyrirtækin Sidekick Health, Lucinity og Arion banki eru tilnefnd til Viðskiptaverðlauna Innherja og velgjörðarfélagsins 1881 í flokknum Tækniundur ársins. Þetta er mat dómnefndar Innherja. Verðlaunin verða veitt og úrslit kunngjörð á Fullveldishátíð atvinnulífsins, miðvikudaginn 15. desember næstkomandi.

Sidekick Health er heilbrigðistæknifyrirtæki sem var stofnað árið 2014 og vinnur að því að þróa heilbrigðismeðferðir til að bæta heilsu fólks með ýmsa langvinna lífsstílstengda sjúkdóma. Fyrirtækið hefur vaxið hratt síðustu misseri og starfsmannafjöldi þess margfaldast og er nú að nálgast 100 talsins, að stærstum hluta á Íslandi. Í rökstuðningi dómnefndar er nefnt að með aðstoð heilbrigðistækni, eins og þeirri sem Sidekick Health hefur þróað, sé hægt ná mun betri árangri og nýta betur dýrmætan tíma starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og eins þá gríðarlega fjármuni sem eru settir í málaflokkinn.

„Heilbrigðisþjónusta hefur verið seinni í að notfæra sér stafrænar lausnir í gegnum snjallsíma heldur en ýmsar aðrar atvinnugreinar. Sidekick Health hefur nú skipað sér sess á meðal fremstu fyrirtækja í þessum nýja iðnaði á alþjóðavísu og landað meðal annars samningum við stærstu lyfjarisa í heiminum,“ segir dómnefnd Innherja.

Lucinity er aðeins þriggja ára gamalt upplýsingatæknifyrirtæki sem hefur hannað varnarkerfi fyrir fjármálafyrirtæki sem byggir á hjálpargreind og tryggir skilvirkari afgreiðslu peningaþvættismála. Talið er að um tvær trilljónir Bandaríkjadala séu þvættaðar í gegnum fjármálakerfið á ári en einungis eitt prósent af þeirri fjárhæð upplýsist. Það er því til mikils að vinna að koma upp betri vörnum gegn peningaþvætti enda hefur það neikvæð áhrif á fjármálakerfi heimsins, fjármagnar glæpastarfsemi og ýtir undir óheilbrigða samkeppni, segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar Innherja.

Slagorð Lucinity er „Make Money Good“ sem er gott og göfugt og til hagsbóta fyrir alla, nema kannski glæpamenn. En það er líka allt í lagi.

„Vöxtur Lucinity á þessum tiltölulega nýja markaði hefur verið afar ör. Fyrirtækið hefur á skömmum tíma selt hugbúnaðarlausnir sínar til innlendra og erlendra banka, en í þeim hópi er meðal annars einn af stærstu fjárfestingabönkum í heiminum. Slagorð Lucinity er „Make Money Good“ sem er gott og göfugt og til hagsbóta fyrir alla, nema kannski glæpamenn. En það er líka allt í lagi,“ segir í annars rökstuðningi dómnefndarinnar.

Arion banki hefur um nokkurt skeið verið leiðandi á meðal íslensku bankanna á sviði stafrænna lausna og nýsköpunar með það að markmiði að gera flókna hluti einfaldari, auka skilvirkni í starfseminni og minnka rekstrarkostnað. Það hefur meðal annars skilað sér í því að á þessu ári hafa 99 prósent viðskiptavina bankans nýtt sér stafrænar lausnir og heimsóknum í útibú hans hefur fækkað um liðlega helming á síðustu tveimur árum, er nefnt í rökstuðningi dómnefndar Innherja.

„Í gegnum Arion appið hefur bankinn komið með nýjar lausnir sem gera lífeyrismál viðskiptavina aðgengilegri og eins er nú mögulegt fyrir fólk, sem er ekki í boði hjá öðrum bönkum, að eiga í hlutabréfaviðskiptum í appinu. Hefur hlutabréfaviðskiptum í gegnum stafrænar lausnir bankans í kjölfarið margfaldast. Arion er í þessum efnum að spila í annarri deild en hinir bankarnir,“ að mati dómnefndarinnar.

Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri Sidekick Health.

Tilnefningar í fleiri flokkum birtast á Innherja á næstunni

Tilnefnt er til verðlauna í eftirfarandi flokkum og munu tilnefningarnar birtast á síðum Innherja á næstu dögum:

  • Kaupmaðurinn
    • Fyrirtæki eða einstaklingur sem vakið hefur athugli í rekstri og viðskiptum með vörur til einstaklinga og fyrirtækja.

  • Tækniundrið
    • Fyrirtæki sem vakið hefur athygli fyrir nýja tækni, tæknivæðingu, tækniforrit og/eða tækniþjónustu.

  • Spámaðurinn
    • Fyrirtæki eða einstaklingur sem þótt hefur framúrskarandi í mati og skýringum á til dæmis hagkerfinu, fjármagnsmörkuðum, atvinnugeirum og/eða stjórnmálum.

  • Rokkstjarnan
    • Bjartasta vonin í íslensku atvinnulífi. Fyrirtæki sem vakið hefur athygli og þykir líklegt til þess að vaxa og ná árangri.

  • Samfélagsstjarnan
    • Fyrirtæki sem vakið hefur athygli fyrir framlag til samfélagsins í formi stuðnings við til dæmis góðgerðarmál, jafnréttismál, íþrótta- og tómstundaiðkun, umhverfismál og þess háttar.

  • Jafnframt verða Viðskipti ársins 2021 tilkynnt auk þess sem Viðskiptamaður ársins er valinn. Þá verða veitt sérstök Heiðursverðlaun íslensks atvinnulífs.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Hefja samstarf við lyfjarisann Pfizer

Íslenska tæknifyrirtækið SidekickHealth er komið í samstarf við þriðja stærsta lyfjafyrirtæki heims. Þróa stafræna heilbrigðismeðferð við reykingum. Mikill ávinningur af slíku samstarfi fyrir lyfjafyrirtæki sem og sjúklingana.

Af vettvangi: Upphitun fyrir Slush í Grósku

Fyrirtækin Lucinity og Fractal 5 stóðu að samkomu í Grósku í síðustu viku til þess að hita upp fyrir nýsköpunarráðstefnuna Slush sem verður haldin í Finnlandi á næstu dögum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×