Innlent

Héðinn snýr heim - vonandi í vor

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Helgi Gíslason myndhöggvari hefur haldið húsaskjóli yfir styttunni af Héðni Valdimarssyni í tvö ár. Sambúðin er góð en Helgi vonast til að hún komist aftur á sinn stað næsta vor.
Helgi Gíslason myndhöggvari hefur haldið húsaskjóli yfir styttunni af Héðni Valdimarssyni í tvö ár. Sambúðin er góð en Helgi vonast til að hún komist aftur á sinn stað næsta vor. vísir/egill

Vestur­bæingar sakna mjög eins þekktasta minnis­merkis hverfisins; styttunnar af Héðni Valdimars­syni verka­lýðs­foringja. Ekkert hefur sést til hennar í þrjú ár en eig­endurnir vonast til að hún verði komin á sinn stað fyrir verka­lýðs­daginn 1. maí.

Styttan var tekin niður við Hring­braut í septem­ber 2018. Gera þurfti við stöpul hennar en styttan átti upp­haf­lega að vera komin aftur á sinn stað nokkrum mánuðum síðar. Nú þremur árum seinna bólar ekkert á henni. Og Vestur­bæingar spyrja sig ein­fald­leg: Hvar er Héðinn?

Héðinn var merkis­maður, gegndi þing­mennsku fyrir þrjá flokka á árunum 1926-1942, Al­þýðu­flokkinn, Sam­einingar­flokk al­þýðu og Sósíal­ista­flokk. Hann var einnig for­maður Verka­manna­fé­lagsins Dags­brúnar og helsti for­ystu­maður byggingar­sam­taka verka­manna sem gengust fyrir byggingu verka­manna­bú­staðanna við Hring­braut.

Hvar er afi?

Styttuna gerði mynd­höggvarinn Sigur­jón Ólafs­son en hún var reist við Hring­braut árið 1955.

Hún gegndi svo auð­vitað eftir­minni­legu hlut­verki í aug­lýsingu Thule fyrir rúmum ára­tug.

Endur­komu styttunnar á sinn stað hefur seinkað mjög, sem hefur farið nokkuð í taugarnar á barna­barni verka­lýðs­foringjans, Steinunni Ó­línu Þor­steins­dóttir leik­konu sem vakti at­hygli á töfunum í fyrra.

Þá fékk hún þau svör frá borgar­stjóra að Héðinn ætti að vera kominn aftur á sinn stað í ágúst það ár en allt kom fyrir ekki.

Steinunn velti málinu svo aftur fyrir sér í síðustu viku: „Hvar er afi?“ spurði hún einfaldlega. „Þetta er frekar vandró að verða.“

Vesen að fara í gegn um Minjastofnun

Styttan er í eigu Hús­fé­lags Al­þýðu sem gefur skýringar á töfunum. Upphaflega var aðeins gert ráð fyrir að steypa þyrfti nýjan stöpul.

Kristín Róbertsdóttir, formaður Húsfélags Alþýðu. Hún gerir ráð fyrir að Héðinn verði kominn aftur á sinn stað fyrir 1. maí.vísir/sigurjón

„Þegar styttan var tekin niður þá náttúru­lega gerðum við bara ráð fyrir því að við gætum steypt nýjan stöpul og sett styttuna upp aftur en það kom í ljós að það þurfti heil­mikið að gera við hana,“ segir Kristín Róberts­dóttir, for­maður Hús­fé­lags Al­þýðu.

Jørn Svend­sen, danskur bronssteypari, aðstoðaði frítt við viðgerðina á styttunni.helgi gíslason

Mynd­höggvarinn Helgi Gísla­son var þá fenginn til að laga styttuna og fékk þá danskan brons­steypara með sér í lið, Jørn Svend­sen, sem kenndi honum réttu hand­tökin í við­gerð á brons­styttu. Hann á­kvað að gera það frítt fyrir Helga.

„Það var nú alveg ó­metan­legt. Við sem sagt keyptum fyrir hann far­miða og svo kom hann bara og vann fyrir Helga og hann gerði þetta bara fyrir vin sinn. Þannig við eigum honum alveg heil­mikið að þakka. Alveg frá­bær maður,“ segir Kristín.

Ágæt sambúð

Styttan liggur nú til­búin á vinnu­stofu Helga.

„Hann er búinn að vera hérna inni í dá­nokkurn tíma. Alveg í næstum því tvö ár. Og við erum orðnir bara, eins og ég segi alltaf „við fé­lagarnir“,“ segir Helgi.

Héðinn kemur inn á verkstæði Helga.Helgi Gíslason

„Sam­búðin er bara alveg ágæt nema hvað ég sneri honum til veggjar fyrir ekki alls löngu. Þá batnaði nú sam­komu­lagið,“ segir hann og hlær.

Héðinn var helsti hvatamaður að byggingu verkamannabústaðanna við Hringbraut.

Þó styttan væri til­búin fyrir all­löngu dróst að fá hana aftur upp­reista því bæði styttan og stöpullinn eru hluti af frið­lýstri heild verka­manna­bú­staðanna og varð öll fram­kvæmdin við að koma henni aftur upp því að fara í gegn um um­sóknar­ferli hjá Minja­stofnun.

„Svo í haust þá kom niður­staðan fyrir það að við fáum að gera stöpulinn. Og ég vonast til þess að næsta vor eða seinni part vetrar verði hægt að steypa stöpulinn og að Héðinn verði kominn á sinn stall fyrir 1. maí,“ segir Kristín og það er við­eig­andi að Héðinn veðri kominn aftur upp fyrir verka­lýðs­daginn sjálfan.

En þangað til heldur Héðinn Helga mynd­höggvara fé­lags­skap á vinnu­stofunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×