Erlent

Hyggjast gera foreldrum kleift að fylgjast með Instagram-notkun barna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mosseri mun svara spurningum þingmanna á morgun en umræðuefnið eru áhrif samfélagsmiðla á líðan og velferð barna og ungmenna.
Mosseri mun svara spurningum þingmanna á morgun en umræðuefnið eru áhrif samfélagsmiðla á líðan og velferð barna og ungmenna.

Stjórnendur Instagram hafa greint frá því að í mars á næsta ári verði kynntir til sögunnar valmöguleikar fyrir foreldra til að stjórna notkun barna sinna á samfélagsmiðlinum. Munu þeir meðal annars geta séð hversu löngum tíma barnið hefur varið í smáforritinu og sett notkuninni mörk.

Að sögn Adam Mosseri, framkvæmdastjóra Instagram, er um að ræða fyrsta skrefið af mörgum í átt að því að koma til móts við gagnrýni um skaðvænlega áhrif samfélagsmiðlanotkunar á börn og ungmenni.

Mosseri mun mæta fyrir þingnefnd á morgun, þar sem hann verður spurður þeirrar spurningar hvort börnum og ungmennum standi ógn af samfélagsmiðlum. Instagram hefur verið í sviðsljósinu síðan uppljóstrarinn Frances Haugen, fyrrverandi vöruþróunarstjóri hjá Facebook, greindi meðal annars frá því að fyrirtækið hefði verið meðvitað um að Instagram ýtti undir lélega sjálfsmynd stúlkna.

Í bloggfærslu sagði Mosseri að aðrar aðgerðir væru í burðarliðnum, eins og þær að notendur myndu ekki lengur getað taggað ungmenni sem væru ekki fylgjendur þeirra. Þá verður nýr valkostur kynntur til sögunnar í janúar en hann mun gera öllum sem það kjósa kleift að eyða fjölda pósta, ummæla og like-a í einu vetfangi.

Samkvæmt frétt New York Times er alls óvíst að ofangreindar aðgerðir dugi til að friða gagnrýnisraddir. Samfélagsmiðlafyrirtækin sjá sig hins vegar tilneydd til að gera eitthvað, ekki síst í ljósi lagasetninga sem gripið hefur verið til utan Bandaríkjanna, til dæmis í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×