Handbolti

Hollendingar og Rúmenar með stórsigra | Frakkar þurftu að hafa fyrir sigrinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Frakkar unnu dýrmætan sigur gegn Serbum í dag.
Frakkar unnu dýrmætan sigur gegn Serbum í dag. Dean Mouhtaropoulos/Getty Images

Fjórum af þeim sex leikjum sem fram fara á Heimsmeistaramóti kvenna í handbolta í dag er nú lokið. Hollendingar unnu risasigur gegn Kasakstan og það gerðu Rúmenar einnig gegn Púertó Ríkó. Frakkar þurftu að hafa fyrir sigrinum gegn Serbum og Rússar unnu öruggan sigur gegn Svartfellingum.

Eins og áður segir unnu Hollendingar og Rúmenar stórsigra og spennan í þeim leikjum var því ekki mikil.

Hollendingar skoruðu 14 af fyrstu 16 mörkum leiksins gegn Kasakstan, og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 27-9, hollensku stelpunum í vil. Sömu sögu er að segja af seinni hálfleiknum, en lokatölur urðu 61-15 og Hollendingar lyftu sér í efsta sæti riðilsins með sjö stig eftir fjóra leiki.

Þá unnu Rúmenar 23 marka sigur gegn Púertó Ríkó, 43-20, í sama riðli fyrr í dag, en Rúmenar eru nú í fjórða sæti riðilsins með fjögur stig.

Rússar lyftu sér tímabundið í efsta sæti síns riðils með sex marka sigri gegn Svartfjallalandi, 31-26, en Rússarnir höfðu yfirhöndina allt frá upphafi leiks og sigur þeirra var aldrei í hættu.

Frakkar þurftu hins vegar að hafa fyrir hlutunum þegar liðið mætti Serbum. Eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik höfðu þær serbnesku þriggja marka forystu, 12-9, en franska liðið var ekki lengi að snúa taflinu sér í hag í seinni hálfleik.

Liðin skiptust þó á að hafa forystuna lengi vel, en Frakkarnir reyndust sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum þriggja marka sigur, 22-19. Frönsku stelpurnar endurheimtu þar með efsta sætið af Rússum, en Serber eru enn í þriðja sæti riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×